Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Þorsteinn Víglundsson er í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag. Hann hefur, eins og aðrir fulltrúar og meðlimir eignastéttarinnar, miklar áhyggjur af margumræddu ástandi. Hann kallar eftir nýrri þjóðarsátt og segir það miður að ekkert traust sé til staðar. Hann segir að við séum í alþjóðlegri kreppu sem við vitum ekki hvenær endi og að við þurfum að gæta okkur á því að „breyta henni ekki í langa og heimatilbúna kreppu“. Það gerist ef að verka og láglaunafólk heldur áfram að vera með derring; hve fljótt það gerðist að „Þetta er engum að kenna“ breyttist í „Þetta er gráðuga láglaunafólkinu að kenna“. Svona er „orðræðan“ merkilegt fyrirbæri, eins og bergkvika rennur hún, heit og hröð.
En Þorsteinn hefur ekki aðeins áhyggjur af frekjunni í fulltrúum vinnuaflsins. Hann kemur þeirri skoðun sinni á framfæri að við séum „til skammar“ í áherslum okkar:
„Mér líkar illa sú orðræða sem felur í sér að þjófkenna atvinnurekendur og tel það til skammar fyrir verkalýðsforystuna sem á að vita betur. Umræðan ætti að einkennast meira af gagnkvæmri virðingu og skilningi“.
Og nú verð ég að segja að það er ekkert minna en kostulegt að lesa þessi orð. Enn á ný afhjúpast algjört þekkingar og áhugaleysi meðlima borgarastéttarinnar á kjörum vinnuaflsins. Um leið og þeir halda að þeir séu þess umkomnir að skamma okkur eins og óþekk börn opinbera þeir þekkingarleysi sitt og fávisku. Því að staðreyndin er sú að á hverju ári er hundruðum milljóna stolið frá verka og láglaunafólki. Árið 2019 sendi Efling frá sér 700 kröfur fyrir hönd félagsfólks, samtals upp á ríflega 345 milljónir, meðalupphæð kröfu 492.000 krónur. Hér eru ónefndar og ótaldar þær kröfur sem önnur félög senda fyrir hönd síns félagsfólks. Vegna þessarar bláköldu staðreyndar úr íslenskum samtíma lögðum við gríðarmikla áherslu á að févíti yrði innleitt (að sá atvinnurekandi sem brýtur gegn kjörum ráðningarsamnings launamanns skuli greiða viðkomandi févíti sem nemur 100% af höfuðstól kröfunnar) í kjaraviðræðunum 2018 – 2019. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir stóran part af þessum þjófnaði; „hvatinn“ væri ekki lengur til staðar þar sem það væri ekki lengur bókstaflega ókeypis að stela frá launafólki.
Nú er það svo að ég og fleiri höfum bent á þessar staðreyndir lengi, vel og vandlega. Og nú er það svo að stjórnvöld lofuðu okkur lausn, í sjálfum loforðapakka Lífskjarasamningsins. En þó er það svo að ekkert bólar á því að loforð þetta verði uppfyllt. Ekkert bólaði t.d. á því í auka-pakkanum sem afhentur var í gær „í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamningsins“ eins og fjárkúgunarherferð SA er kölluð á heimasíðu Stjórnarráðsins. Þrátt fyrir að uppfyllingin kosti nákvæmlega 0. íslenskar krónur. Því það er víst svo að Samtök atvinnulífsins standa algjörlega gegn því að stjórnvöld uppfylli févítis-loforðið.
Hvers vegna? spyrjið þið kannski. Hvers vegna vilja Samtök atvinnulífsins ekki taka þátt í því, í nafni „virðingar og skilnings“, að launaþjófnaður sem veldur hræðilegum skaða í lífi verkafólks verði upprættur? Og kannski spyrjið þið líka: Hvernig stendur á því að stjórnvöld ganga ekki bara í málið, sama hvað Halldór Benjamín segir, og gera skyldu sína í að fjarlægja þessa þjóðarskömm sem fengið hefur að viðgangast og vaxa og dafna samhliða því að fjöldi aðflutts fólks hefur komið hingað til að vinna?
Ég hef spurt sjálfa mig þessarar spurningar svo oft að ég hef ekki lengur neina tölu á því. Og eina svarið sem ég hef er þetta: Stjórnvöldum og Samtökum atvinnulífsins stendur nákvæmlega á sama um aðflutt verkafólk og hagi þess. Á þessum tímapunkti er ekkert annað sem kemur til greina. Græðgi þeirra sem vilja græða er einfaldlega 345 milljón-sinnum meiri en virðing og hagsmunir verkafólks.
Þess vegna segi ég þetta: Orð Þorsteins eru kostuleg. Hann sjálfur er ófær um að einu sinni þykjast hafa áhuga á stöðu mála út frá okkar sjónarhorni, aðstæðunum sem við þekkjum, vandamálunum sem við erum að takast á við. En hann, líkt og aðrir sem lifa í endalausum forréttindum, skilur ekki sjálfur hvað hann er fáfróður. Og stígur þess vegna fram til að skammast í vitleysingunum, algjörlega ómeðvitaður um að hann sjálfur er sá vitlausi og við sem eigum að skammast okkar, upplifum vissulega skömm, en hún er einungis fyrir hans hönd. Svo hristum við hana af okkur og höldum áfram að berjast. Því það er víst ekkert í stöðunni.