Atli Þór Fanndal skrifaði:
Fréttastofa RÚV hefur nú smellt í nýtt hlaðvarp sem heitir Sjö mínútur með fréttastofu RÚV. Í þessum þætti fáum við að hlusta á fréttafólk RÚV tala við annað fréttafólk á RÚV. Rætt er hvernig þeim líður yfir afsögn Bjarna og spjallað um stemmarann þegar svona fréttir koma. Við fáum svo að heyra hvað Bjarni er gasalega snjall og stjórnarandstaðan asnaleg og sár. Hann Bjarni kláraði nefnilega bara málið með því að vera svo ógó taktískur.
Þau hafa farið yfir gærdaginn og hugsað að það sem nú væri kallað eftir sé meiri persónudýrkun frá Ríkisútvarpinu.
Það er eiginlega ekki hægt að ýkja hvað þessi fréttastofa er sjálfhverf og veik. Fréttastofa RÚV virðist fyrirlíta almenning og er hreinlega staðráðin í að stroka út með öllu þátt almennings í að ná þessari niðurstöðu. Þau geta ekki minnst á að Bjarni hafi auðvitað ekkert sagt sig frá starfi fjármálaráðherra af því bara. Það hefur verið barátta hérna um að málið sé ekki kæft.
Það má auðvitað alls ekki bera virðingu fyrir kröfu um rannsókn. Nei, það væri bara einhver pólitík að minnast á kröfu mótmæla. Miklu betra að segja lummó fimmaura um að asnalega liðið í stjórnarandstöðunni sé spælt því Bjarni spilaði á þau. Alltaf sama narratífan; stjórnmál fjalla aldrei um innihald – alltaf bara keppni um ekkert.
Það má auðvitað ekki gefa það til kynna að mótmæli, bréfaskrif, umsagnir, stofnun samtaka og annað slíkt virki eitthvað. Fréttastofa er ekki í þeim pakka að láta eins og pólitík sé eitthvað samtal samfélagsins. Svona mál eru bara handleruð í bakherbergjum og svo miðlað af RÚV til fólks með sniðugum viðtöl við PR fólk um hvað Bjarni gerði þetta vel og svo spjalli við fréttamenn um kaffið á fundinum og óvænt sms.
Maður á ekki að gera svona mikið grín af þessu en þessi fréttastofa er sjúk af meðvirkni. Gjörsamlega áhugalaus um fréttir.