Gunnar Smári skrifar:
Þetta er eiginlega bráðfyndin frétt. Fyrir ári lék Félag eldri borgara á reiðiskjálfi vegna ótta sumra við kommúníska byltingu, og fjöldi fólks, sem margt hafði aldrei komið nærri starfi félagsins, flykktist á félagsfund til að forða veröldinni frá harðari hagsmunabaráttu eldra fólks. Og kaus sem formann Sjálfstæðisflokkskonu, sem nú vill á þing fyrir þann flokk sem staðið hefur fyrir innleiðingu tekjutenginga inn í öll grunnkerfi samfélagsins á undanförnum áratugum, flokk sem leitt hefur fjármálaráðuneytið í gegnum skattabreytingar nýfrjálshyggjunnar og fjármagnað skattalækkanir hinna ríku með tekjutengingum fólks sem á rétt á bótum og hækkun skatta á almenning, einkum millitekju- og lágtekjufólk. Þessi kosning í fyrra var því í reynd sameining eldri borgara og kvalara þeirra í eina hreyfingu, sem berjast mun fyrir óbreyttu ástandi, helst enn meira niðurbroti velferðarkerfisins sem byggt var upp á síðustu öld með afli hinnar sósíalísku verkalýðshreyfingar.