Fréttir

„Þetta er dónaskapur“

Þetta er stærsti angi svarts hagkerfis á Íslandi. Þetta er ekkert mál fyrir lögregluna að fara á eitt „patról“ og banka upp á. Bendir á að um 3.300 einingar Airbnb séu óskráðar.

By Miðjan

April 13, 2018

„Þetta er dónaskapur. Dónaskapur við skattgreiðendur, við samkeppnisaðila, við þjóðfélagið, við þau sveitarfélög þar sem þetta er rekið. Ég er búinn að taka þetta mál upp líklega fimm sinnum við fjóra ráðherra, um að gerð verði gangskör að því að fá þessa aðila sem þessa atvinnustarfsemi stunda til þess að skrá sig og fá leyfi,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi í dag.

Hann vitnaði til skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustu. Þar kemur fram, að því að þingmaðurinn sagði, hér séu 3.500 einingar Airbnb-gistinga, en aðeins 213 af þeim er skráð, hinir eru þá óskráðar. „Þetta er stærsti angi svarts hagkerfis á Íslandi,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn er ekki að byrja þetta mál. „Það er furðulegt, en það hefur enginn ráðherra enn treyst sér til að fara að þeirri tillögu minni að lögreglan verði fengin til þess að banka upp á hjá þessum aðilum, kanna hvort þeir hafi leyfi. Og ef ekki, að sekta þá og fá þá til þess að skrá sig. Það er auðvelt. Hér á korti má sjá Reykjavík,“ sagði hann og sýndi kort af borginni. „Rauðu punktarnir eru Airbnb-gististaðir. Þetta er ekkert mál fyrir lögregluna að fara á eitt „patról“ og banka upp á. Það þarf ekki að banka upp á hjá nema 100, þá koma hinir og skrá sig. Þetta er óþolandi.“