„Þetta er algjört rugl“
„Ef við getum ekki gert þetta rétt, ef ráðherrar geta ekki gert þetta rétt, hvernig getum við gert ráð fyrir að aðrir sem eru hérna úti geti farið eftir þeim lögum sem við erum að setja?“
Björn Leví Gunnarsson gefst ekki upp og spyr spurninga sem virðast ekki vera framkvæmdavaldinu að skapi. Hann tók til máls á Alþingi og sagði:
„Mig langar til að vekja athygli forseta og þings á svari sem ég fékk í gær frá hæstv. forsætisráðherra um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra og ráðuneytisstjóra. Þar spyr ég m.a., með leyfi forseta:
„Í hve mörgum tilfellum endurgreiddu ráðherrar þann hluta dagpeninga sem er ætlaður til að standa undir ferðakostnaði til og frá flugvelli innan lands?“
Svarið er að ríkið skuli leggja ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa þeirra. Af því leiði að ráðherra er jafnan ekið til flugvallar í bifreið ráðuneytis.
Hann fær jafnframt dagpeningana sem úthlutað er til þeirrar ferðar. Ráðherra fær bæði frítt far með ráðherrabifreið og dagpeningana fyrir þann kostnað.
Hins vegar spurði ég:
„Hversu oft og hve háar voru árlegar endurgreiðslur ráðherra og ráðuneytisstjóra vegna styrkja og hvers konar hlunninda sem þeir nutu erlendis og eiga samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar að koma til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum?“
Þar er svarið, með leyfi forseta, eitt það hlægilegasta sem ég hef séð:
„Hefð hefur ekki skapast fyrir því að leggja sérstakt mat á umfangið þannig að það hafi leitt til frádráttar frá almennum dagpeningagreiðslum.“
Þegar maður spyr af hverju ekki er farið eftir reglum þá er svarið oft þannig að hefð hafi myndast fyrir því að gera það einhvern veginn öðruvísi. Það er líka fáránlegt svar, en þetta er enn fáránlegra, að hefði hafi ekki myndast. Þetta er algjört rugl. Þetta er algjört virðingarleysi gagnvart reglum sem við setjum hérna. Ef við getum ekki gert þetta rétt, ef ráðherrar geta ekki gert þetta rétt, hvernig getum við gert ráð fyrir að aðrir sem eru hérna úti geti farið eftir þeim lögum sem við erum að setja?
Þetta þýðir að ráðherrar eru að fara frítt og fá pening, fá greitt fyrir að fara út á flugvöll og til baka. Þeir fá greiddan pening fyrir fría máltíð sem þeim er boðið. Þeir fá pening fyrir að kaupa sér máltíð, ef þeir fá fría máltíð ættu þeir að endurgreiða þann pening sem þeir fengu upp í þann kostnað en þeir gera það ekki. Þeir fá pening fyrir eitthvað frítt gagngert gegn reglum.“