Ég vona að haft verði gott eftirlit með því að ofurlaunaliðið fái ekki að spara sér launaútgjöld á kostnað skattgreiðenda.
Marinó G. Njálsson skrifar:
Jæja, þá er búið að birta listann og ekki er hægt að segja annað en á honum séu mörg fyrirtæki, sem mér finnst ekki eiga erindi þar. Treysti ég því að rannsóknarblaðamenn landsins leggist yfir listann og finni út hvaða fyrirtæki hafa ekki orðið fyrir verulegu tekjutapi, greiddu út arð vegna síðasta árs og eru í það miklum efnum að þau hefðu ráðið vel við stöðuna án aðstoðar frá ríkissjóði.
Hafa skal í huga að listinn nær eingöngu til fyrirtækja sem gerðu samninga við 6 eða fleiri starfsmenn um að fara á hlutabætur. Auk þess sömdu fyrirtæki við 1 og upp í 5 starfsmenn um að fara á hlutabætur sem hér segir:
- Einn starfsmann 2.950 fyrirtæki
- Tvo starfsmenn 1.138 fyrirtæki
- Þrjá starfsmenn 568 fyrirtæki
- Fjóra starfsmenn 372 fyrirtæki
- Fimm starfsmenn 245 fyrirtæki
Þar sem ekki er tilgreint hve marga starfsmenn hvert fyrirtæki á listanum samdi við, þá skil ég ekki af hverju ekki má birta nöfn allra fyrirtækjanna. Það er alveg jafnljóst hvaða starfsmenn tannlæknastofu með undir 10 starfsmenn á launaskrá hafa líklega farið á hlutabætur, eins og hvaða eini starfsmaður fyrirtækis með 5 á launaskrá fór á hlutabætur. Ég vona að haft verði gott eftirlit með því að ofurlaunaliðið fái ekki að spara sér launaútgjöld á kostnað skattgreiðenda.
Ég ætla nú ekki að birta listann í þessari færslu, en vísa til hans í staðinn af vef Vinnumálastofnunar: https://vinnumalastofnun.is/…/minnkad-starfshlutfall-listi-… Hann er virkilega áhugaverður og á honum eru fyrirtæki hverra eigendur eru með best settu einstaklingum á Íslandi. Vil ég bara segja hreint út, að það er algjör skandall að sum þessara fyrirtækja hafa ákveðið að láta skattgreiðendur taka á sig hluta launakostnaðarins.
Skrifin birtust fyrst á Facebooksíðu Marinós.