Greinar

„Þessi stúlka er andlegur risi“

By Miðjan

May 02, 2019

Guðrún Eva Mínervudóttir skrifar fína grein í nýjasta tölublað Vinnunnar sem ASÍ gefur út.

Hér er stuttur kafli greinarinnar:

„Í þeirri stórmerku pistlaröð Fólkið í Eflingu var eitt sinn rætt við unga konu sem vann við að þrífa á elliheimili. Hún sagðist smám saman hafa gert sér grein fyrir því hvað þrif eru mikilvægt og göfugt starf og mikill grundvöllur mannlegrar reisnar og vellíðunar. Ég horfði á myndina af henni, brosandi og klæddri hvítu stofnanalíni, og hugsaði: Þessi stúlka er andlegur risi. Ef einhver á skilið að vera á ofurlaunum þá er það hún. Það er að segja: ef ofurlaun væru einhvers virði í sjálfu sér en ekki sá vandræðalegi misskilningur sem þau eru.   

Fólk ætti ekki að þurfa að berjast fyrir mannsæmandi launum. Það ætti að vera sjálfgefið að í skiptum fyrir átta tíma vinnudag (og þótt tímarnir væru aðeins sex eða fjórir) getum við lifað án þess að hafa áhyggjur af beisikk afkomu. Á hinn bóginn eru verkföll, jafn óþægileg og óhentug og þau kunna að vera, svo vitundarvekjandi; vegna þess að þau varpa ljósi á það hversu háð við erum framlagi hvers annars. Engin störf eru ómerkileg. Öll störf eru mikilvæg, göfug og góðra gjalda verð. Með örfáum undantekningum: Ekki vildi ég til dæmis þiggja laun úr klóm gamma. Eða vera talsmaður risa-matvælaframleiðanda sem boðar að aðgangur að drykkjarvatni sé ekki mannréttindi heldur aðeins fyrir þá sem geta borgað. En það er önnur saga.“