Þessi fjandans verkalýðshreyfing
Engum kom út af fyrir sig á óvart hvaða þingmenn eða forystumenn í verkalýðshreyfingunni misstigu sig.
„Staðreyndin er sú, sem oft gleymist í umræðum um kjaradeilur, að á Íslandi ríkir félagafrelsi. Það felur ekki aðeins í sér rétt fólks til að stofna og starfrækja félög, heldur einnig til að standa utan félaga eða vitaskuld að ganga úr félögum og stofna ný.“
Þetta segir í nafnlausum leiðara Moggans. Líklegast er að Davíð Oddsson hafi skrifað þetta. Hann finnur talsvert af tilurð verkalýðshreyfingarinnar.
„Þá gleymist oft að á Íslandi er afar hátt hlutfall fólks í verkalýðsfélögum, miklu hærra hlutfall en gengur og gerist í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við og þar með í flestum þeim löndum sem búa við hvað mesta hagsæld og velferð,“ segir í leiðaranum.
„Verkalýðsforkólfar hér láta gjarnan eins og þeir hafi einhvern einkarétt á samningum við atvinnurekendur og að öllum launamönnum beri skylda til að lúta vilja þeirra á vinnumarkaði en leita ella annað um starf. Í frjálsu samfélagi er slíkur yfirgangur ólíðandi. Fólk getur að sjálfsögðu bundist samtökum í gegnum félög, en það getur líka ákveðið að fara aðrar leiðir. Verkalýðsfélög, með þeirri miklu þátttöku sem þekkist hér á landi, eru fjarri því að vera forsenda hagsældar eða velsældar almennings. Frjálst samfélag og hagkerfi er á hinn bóginn það sem reynst hefur vænlegasti kosturinn í þessu efni.“
Leiðarahöfundurinn er ekki hrifinn af núverandi forystu verkalýðshreyfingarinnar. Blaðið er að sama skapi á línu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar:
„Allir sjá að sú leið sem Icelandair boðaði fyrir helgi er ekki fyrsti kostur nokkurs fyrirtækis heldur neyðarráðstöfun þegar allar aðrar leiðir eru lokaðar. Þær árásir sem fyrirtækið mátti sitja undir frá ýmsum aðilum sem stöðu sinnar vegna ættu að huga að heildarhagsmunum þjóðarinnar í stað þess að fara fram með gaspri og lýðskrumi voru dapurlegar og enn eitt merki þess að sumir taka stundarhagsmuni sína, mælda í sýnileik í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, fram yfir þá stærri hagsmuni sem þeir ættu að horfa til. Engum kom út af fyrir sig á óvart hvaða þingmenn eða forystumenn í verkalýðshreyfingunni misstigu sig á þessari mikilvægu stundu, en það er þeim engu að síður álitshnekkir,“ skrifar Davíð.
Svo kemur prívatsneið á Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, sem vissulega er ógn við auðvaldið.
„Þá kom út af fyrir sig ekki á óvart eftir það sem á undan er gengið í þeim efnum að forystumaður í verkalýðshreyfingunni skyldi senda stjórnarmönnum í lífeyrissjóði skilaboð um að reyna að koma í veg fyrir endurreisn Icelandair. En þó að þetta komi ekki á óvart er þetta alvarlegt mál sem hlýtur að kalla á umræður og athugun jafnt hjá félagsmönnum hans sem öðrum.“