Bubbi Morthens skrifar fína grein í Fréttablaðið í dag, til varnar íslenskunni. Hann er gagnrýninn. Grípum niður á tveimur stöðum í greininni. Hér sá fyrri:
„Meðan íslenskan er að berjast fyrir lífi sínu í brimboðum enskunnar hafa menn slökkt á vitanum. Það sést ekki til lands. Æ fleiri fyrirtæki í græðgisbríma kasta íslenskunni. Í veitingahúsabransanum er það að verða þannig að þjónar tala ekki íslensku, matseðlar eru á ensku, staðirnir bera ensk nöfn. Í fjármálageiranum fara fyrirlestrar fram á ensku. Það nýjasta nýja er að Flugfélagi Íslands varð brátt í brók og skírði kúkinn Air Iceland Connect. Virðingin fyrir sögunni, arfleifðinni, tungumálinu var ekki meiri hjá þessu gamalgróna fyrirtæki.“
Fáir, ef nokkur, hefur orðað smekkleysi Flugfélagsmanna betur en Bubbi gerir þarna.
Síðara brotið, sem vitnað verður til hér, en þar brýnir Bubbi okkur til góðra verka:
„Við verðum líka öll að vera vakandi heima fyrir, leiðrétta börnin okkar og okkur sjálf. Það er enn þá ort á íslensku, það er enn þá sungið á íslensku, enn þá eru skrifaðar bækur á íslensku, við tölum enn þá íslensku, fréttir eru sagðar á íslensku, en hversu lengi verður það þegar hvert fyrirtækið af öðru í borginni ber enskt nafn? Þó að ferðamenn komi hingað í áður óþekktum mæli þurfum ekki að gefa íslenskuna upp á bátinn.“
-sme