Fréttir

Þeir borgi sem eiga peningana

By Miðjan

September 24, 2019

„Það má ekki gleyma hinni hliðinni á peningnum, sem er að fjármagna velferðina okkar, spítalana, menntakerfið og alla innviði. Einhver þarf að borga og það er sanngjarnt að þeir borgi sem eigi peninga. Það vantar því miður í frumvarpið og því er það áhyggjuefni hvernig á að fjármagna heilbrigðisþjónustuna okkar, sem nú þegar fær ekki nóg,“ skrifar Drífa Snædal, forseti ASÍ, í pistli á asi.is.

Hún fjallar þar meðal annars um fjárlagafrumvarpið.

„Hvað sem fjárlagafrumvarpi og fyrirhuguðum skattabreytingum líður þá er alveg ljóst að stóra baráttan næstu árin og áratugina verður sanngjörn dreifing okkar gæða. Miðstjórn ASÍ ályktaði á miðvikudaginn um fjárlagafrumvarpið undir fyrirsögninni „Sanngjarnt skattkerfi sem eykur jöfnuð og fjármagnar velferð“. Það var stór sigur í vor að fá stjórnvöld til að fallast á þriggja þrepa skattkerfi þar sem hugmyndafræðin er að létta sköttum af þeim tekjulægstu en í staðinn hækkar skattprósentan eftir því sem þú hefur meira aflögu. Við hefðum reyndar kosið ofurteknaskatt líka og hækkun fjármagnstekna.“