Það ætti frekar að stækka það og efla heldur en að loka. Ég á ekki orð yfir þessu rugli.
„Grunnlaun mín í dag þar sem staða mín er að vera staðgengill aðalvarðstjóra með titilinn óbreyttur lögreglumaður kr. 441.564. Nýútskrifaður lögreglumaður með tveggja ára háskólanám á bakinu er með 359 þúsund krónur rúmar.“
Þetta skrifar Aðalsteinn Júlíusson lögreglumaður á Akureyri, lögreglumaður til áratuga.
„Lögreglumenn og konur eru seinþreytt til reiði og þolinmæði höfum við haft nóga. Í dag er sú þolinmæði þrotin, farin. Því miður er vinnuveitanda okkar „drullusama“ og kærir sig kollóttan. Við höfum átt sex fundi með samninganefnd ríkisins [SNR] og okkur er alltaf boðin sama tuggan, „Lífskjarasamningurinn“ svonefndi sem ASÍ samdi um fyrir lögreglu og jafnframt öllum okkar kröfum hafnað að fullu. Við höfum farið fram á leiðréttingu launatöflunnar sem okkur hafði verið lofað af SNR fyrir síðustu samninga en svikin eru algjör og menn viðurkenna ekki nein loforð. Ég segi við ykkur vinnuveitanda minn, ríkið: „Viljið þið skammast til að reka grunnþjónustu ykkar af myndarbrag og borga starfsmönnum ykkar sómasamleg laun“.“
Skrif Aðalsteins birtust í Mogganum í dag. Greinin er löng. Miðjan birtir aðeins lítinn hluta greinarinnar. Seinna í greininni kemur Aðalsteinn að öðru máli:
„Aðeins að öðru, varðandi glórulausa og óskiljanlega ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri, vil ég hvetja dómsmálaráðherra okkar til að standa í fæturna og snúa þessari ákvörðun við þegar í stað. Það verður dýrara fyrir ríkið, þegar upp er staðið að loka, heldur en að nýta fangelsið. Það ætti frekar að stækka það og efla heldur en að loka. Ég á ekki orð yfir þessu rugli.“