- Advertisement -

Þegar veröldin er skoðuð úr músarholu sérhagsmunagæzlu

Nóg að styðja Úkraínumenn með öðrum hætti.

Í maí 2022 ákváðu Evrópusambandsríkin 27 að fella niður tolla á úkraínskum iðnaðar- og landbúnaðarvörum, fyrst í eitt ár.

Þetta var bara einn – fremur táknrænn heldur en praktískt mikilvægur – liður í stórfelldu styrktar- og hjálparprógrammi ESB við Úkraínu. Íslendingar ákváðu, góðu heilli, að taka þátt í þessum stuðningi og tollfrelsi. Bretar slóust líka í hópinn.

Þessi afstaða ESB byggðist á því, að grimmileg árás Pútíns á Úkraínu hafði sett flesta starfsemi þar – iðnað, landbúnað, flutningsþjónustu, verzlun og aðra atvinnuvegi – úr skorðum, m.a. vegna þess, að mikill hluti karla og kvenna á aldrinum 18-60 ára, hafði verið kvaddur í herþjónustu; til að hætta lífi sínu og limum, fórna blóði sínu á vígvellinum, ekki bara Úkraínu og sjálfstæði hennar og frelsi, heldur líka Evrópu allri til varnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kennir þar ýmissa grasa. Ekki allra gæfulegra.

26. maí sl. ákváðu ESB-löndin svo einróma að framlengja sérstakt tollfrelsi Úkraínu um eitt ár. Sjálfsagt mál. Bretar höfðu þá þegar gert það. Ekki veitt af áframhaldandi stuðningi við stríðshrjáða þjóð.

Íslendingar, ríkisstjórn og alþingismenn, treystu sér hins vegar ekki til að framlengja stuðninginn og tollfrelsið. Þetta kostaði kjúklingabú landsins of mikið, væri ekki sanngjarnt, gengi um of á arðsemi kjúklingabúa. Nóg að styðja Úkraínumenn með öðrum hætti.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, ber að verulegu leyti ábyrgð á því, að þessum umbeðna stuðningi Úkraínumanna var hafnað.

Hún skrifar svo grein í blaðið á þjóðhátíðardaginn sinni afstöðu til varnar.

Kennir þar ýmissa grasa. Ekki allra gæfulegra.

Efni og tölur greinilega frá kjúklingabændum, en starfsemin er reyndar meira orðin iðnaður, fjöldaframleiðsa á lifandi verum, sem svo eru snúnar úr hálfsliðnum, en búrekstur.

Ólafur Stephensen, vandaður maður, upplýsir nýlega á Vísi: „Matvælaráðuneytið metur það svo, að haldi innflutningur á úkraínskum kjúklingum áfram, í sama mæli og verið hefur, nemi það 2-3% af markaðinum fyrir kjúklingakjöt.“

Guðrún gefur til kynna

Guðrún fullyrðir, hins vegar, „að útlit sé fyrir“ að þessi markaðshlutdeild muni nema 10-15%. 2-3% talan frá matvælaráðuneytinu, 10-15% væntanlega frá kjúklingabændum.

Athyglisvert er, að Guðrún notar orðalagið „útlit er fyrir“ sem menn geta notað um nánast hvað sem er, hvenær sem er, til að forðast það, sem rétt er og satt.

Hér er vert að skjóta því að, að nánast allar framleiðsluvörur, sem fluttar eru til Íslands, t.a.m. allar vörur frá Kína, eru tolllausar. Er tollfrelsi því enginn sérstakur akkur.

Guðrún gefur til kynna, enn með sveigjanlegu orðalagi, að ESB ætli að fara í gífurlegar mótvægisaðgerðir, væntanlega til að rétta hlut evrópskra kjúklingaframeiðenda, vegna tollleysis úkraínska kjúklinga, sem munu nema 160 milljörðum króna, eða um milljarði Evra. Bara til að laga kjúklingamál!?

Þetta er yfirkeyrð og fáránleg fullyrðing. Engin glóra í þessari tölu, enda finnst ekki stafur um slíkt, hvorki á þýzka né enska netinu.

Sannleikurinn um evrópska kjúklingamarkaðinn er þessi:

 Langstærstu seljendur kjúklingakjöts inn á ESB-markaðinn eru Brasilía og Taíland. Bæði þessi lönd eru helmingi stærri en Úkraína í þessu tillti.

ESB hefur leitt framfarir um hreinlæti og hollustu…

Úkraína hefur verið að selja 100-150.000 tonn af kjúklingakjöti á ári til ESB-ríkja, á sama tíma hafa ESB-ríkin selt  meira magn kjúklingafurða til Úkraínu, eða 180.000 tonn. Sú mynd, sem Guðrún og umbjóðendur hennar reyna að draga upp, að Úkraína sé að drekkja Evrópu í kjúklingaafurðum, er því algjörlega röng.

Guðrún reynir að draga heilnæmi innflutts kjúklingakjöts í efa og fullyrðir þetta: ”Íslenzkir kjúklingabændur hafa nánast útrýmt campylobacter-sýkingum hér á landi á sama tíma og sú sýking er í um 50-60% af kjúklingum í Vestur-Evrópu og í allt að 80% í austurhluta álfunnar”. Hún bætir svo við, skyldi engan undra. ”…að því að talið er”.

Annar eins þvættingur. Eru Evrópubúa að borða 50-80% sýkt kjöt og láta það bara gott heita!?

ESB hefur leitt framfarir um hreinlæti og hollustu í matvælaiðnaði, og er allt það bezta í okkar regluverki um neytendavernd, hreinlæti, heilbrigði og hollustuhætti við matvælaframleiðslu frá ESB komið.

Fullyrðingar um stórfellda neyzlu sýkts kjöts í Evrópu, er því ábyrgðarlaust fleipur. Hvernig getur Guðrún og hennar ósvífna lið þá neytt fæðis á ferðalögum um Evrópu!? Kannski taka þau með sér íslenzkt kjúklingakjöt.

Guðrún er enn ekki af baki dottin og fullyrðir í framhaldinu þetta: „Sýklalyfjanotkun er til að mynda níföld í Danmörku og fimmtíuföld í Póllandi, í samanburði við það, sem gerist á Íslandi”.

Það er ekki nema von, að blessaðir Pólverjarnir flykkist hingað.

Það væri fróðlegt að vita, hvaðan Guðrúnu koma þessar upplýsingar og hvernig þeirra er aflað.

Að lokum þetta:

  1. Það, að íslenzkir kjúklingabændur skuli yfir höfuð njóta tollaverndar, stenzt illa eða ekki. Hvað þarf hér sérstaklega að vernda? Feykihár flutningskostnaður til landsins, þar sem kæla/frysta þarf vöru í flutningi, ætti að vera nægileg vernd.
  2. Guðrún, hvað með hagsmuni íslenzkra neytenda, sem kannske gætu sparað dálítið með því að komast í tollfrjálst úkraínskt kjúklingakjöt!? Skipta hagsmunir þeirra engu máli!? Eiga hagsmunir 23 kjúklingabænda að ganga fyrir öllu!?

Stundum er betur heim setið, en af stað farið.

Ole Anton.

JARÐARVINIR – FRIENDS OF EARTH

Félagasamtök um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: