„Skilningur á nauðsyn þess að gæta hófsemdar í álögum á fyrirtæki og einstaklinga er takmarkaður. Við sem teljum nauðsynlegt að koma böndum á skattagleði hins opinbera þurfum auðvitað að draga fram staðreyndir. Halda því til haga að skattbyrði á Íslandi, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, er sú þriðja þyngsta í Evrópu að teknu tilliti til lífeyris- og almannatrygginga. En staðreyndir duga ekki, það þarf að setja þær í samhengi við lífskjör almennings. Við verðum að læra að setja skattheimtu og reglubyrði í samhengi við samkeppnishæfni atvinnulífsins, fjölda starfa og möguleika fyrirtækja til að standa undir góðum launum og bættum lífskjörum.“
Þetta er valinn kafli úr vikulegri Moggagrein Óla Björns Kárasonar. Hér kemur annar kafli, þar sem Óli Björn fjallar um hugsanlega fjölgun ríkisstarfsmanna. Um það verður fjallað í nýjum morgunþætti hér á Miðjunni. Þar verður rætt við Ágúst Ólaf Ágústsson Samfylkingu.
„Eins og við var að búast eru margir með einfaldar lausnir á vandanum. Það á að fjölga ríkisstarfsmönnum og hækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Með öðrum orðum; auka á umsvif ríkisins og leggja þyngri byrðar á launafólk og fyrirtæki. Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, sem birt var í síðustu viku, breytir engu í hugum þeirra sem berjast fyrir aukinni ríkisvæðingu og telja að ríkið sé uppspretta og endir allra verðmæta.“