Þegar Sanna afþakkaði að vera húsþræll
Gunnar Smári skrifar:
Ágæt að rifja núna upp það sem Sanna sagði þegar sósíalistar höfnuðu að ganga inn í meirihluta undir forystu Samfylkingar og Viðreisnar, nú þegar meirihlutinn er kominn í stríð við láglaunafólkið í borginni.
Malcom X talaði um grundvallarmuninn á húsþrælum og þrælunum út á akrinum. Húsþrælar voru nokkrir svartir þrælar sem fengu að búa í húsi þrælahaldarans, hvíta húsinu á meðan aðrir þræluðu á akrinum og sváfu á beru moldargólfinu í kofaræksnum. Húsþrælarnir sváfu á dýnum í kjallara hvíta hússins, fengu matarafganga af borði húsbóndans, gengu í fötum af húsbóndanum, þrifu húsið, sáu um matinn og gættu barna húsbóndans. Þeir voru hluti af húsi þrælahaldarans þótt þeir hafi ekki haft neinn rétt og að húshaldið snerist ekki um þarfir þeirra. En líf þeirra var mun þolanlegra en líf þrælanna á akrinum. Það rigndi ekki inn á þá á nóttinni, þeir voru ekki barðir með svipum ef þeir héldu sig á mottunni og þeir fóru ekki svangir að sofa örþreyttir eftir langan vinnudag undir brennheitri sólinni. Svo framarlega sem þeir rugguðu ekki bátnum gátu þeir lifað við aðstæður sem voru svo miklu bærilegri en líf þrælanna á akrinum. Í samanburði við akurinn var líf húsþrælanna lúxus. Húsþrælarnir mátu það sem hagsmuni sína að viðhalda hvíta húsinu þótt vald þess væri ekki þeirra vald.
Þegar þrælarnir á akrinum litu til hvíta hússins óskuðu þeir hins vegar að það myndi brenna. Hvíta húsið var kúgunarvaldið, valdið sem svipti þá frelsinu, niðurlægði þá, vildi brjóta þá niður. Þeir sungu baráttusöngva og sálma til að viðhalda von sinni um að losna undan kúgun hvíta hússins. Húsþrælarnir sungu ekki. Aldrei hef ég vitað til þess að neinn sálmur hafi verið saminn af húsþræl. Húsþrælarnir reyndu að tala og hegða sér eins og húsbændurnir.
Þrælarnir á akrinum sættu sig ekki við aðstæður sína, þeir sættu sig ekki við hungrið, þrælkunina og ófrelsið. Og þeir sættu sig ekki við hið óréttláta kerfi, sáu í gegnum það. Þeir reyndu því ekki að semja við húsbændurna um styttingu vinnuvikuna, um stærri matarskammt eða um mjúka dýnu. Þeir sömdu ekki við þrælahaldarann um að fá að hlaupa 30 metra í nótt heldur hlupu þeir eins og fætur toguðu, flúðu ástandið og leituðu að frelsi. Þeirra barátta gat ekki farið fram á forsendum hvíta hússins. Þau höfðu séð of marga þræla hverfa þangað inn með hlekki um hálsinn og koma út með gamalt hálstau af húsbóndanum, reyna að sefa þrælana á akrinum, telja þeim trú um að þeir hefðu sama hagsmuni og húsbóndinn. Ef húsbóndinn hefur það gott, þá munum við líka hafa það gott, höfðu húsþrælarnir sagt. Trúið mér, ég er svartur eins og þið.
Fjöldahreyfing þrælanna á akrinum snerist um að hafna erindi húsþrælanna, erindi þrælahaldarans sem þeir vildu bera út á akurinn. Fjöldahreyfing þrælanna á akrinum var samstaða gegn óréttlætinu. Ekki beiðni um eilítið stærri matarskammt. Heldur samstaða um að fella hið óréttláta kerfi. Og þeir fyrirlitu húsþrælinn ekkert minna en þrælahaldarann.
Auðvitað var það freisting fyrir þræl á akrinum að hegða sér vel, beygja sig undir valdið og vonast til þess að hann verði kallaður til starfa í hvíta húsinu, komast inn í ylinn og fá að taka þátt í húshaldinu þótt það sé snúist ekki um hans þarfir og væntingar. Lífið á akrinum var óbærilegt, þar var vonin veik og brast oft á dag. En ef allir þrælarnir á akrinum hefðu haft það eina markmið að komast að í hvíta húsinu hefði barátta þrælana fyrir frelsinu aldrei unnist. Hún hefði orðið endalaus endurtekning sömu sögunnar, um þrælinn sem losnaði við járnhlekkina til að setja á sig ósýnilega hlekki hugarfarsins fyrir mýkri dýnu, heitari mat og þak sem rigndi ekki í gegnum.
Það er notalegra að búa í villu hvíta mannsins, en það er ákvörðun um að taka enga áhættu og um að fórna möguleikanum á að baráttan skili raunverulegum árangri. Sá sem tekur ákvörðun um að ganga inn í hvíta húsið mun að öllum líkindum verða samdauna valdinu og fara á skömmum tíma að tala eins og húsbóndinn.
Við sósíalistar viljum meira en eitthvað notalegt sem valdið er til í að rétta fáeinum af okkur. Við viljum eitthvað frábært, við viljum eitthvað magnað, við viljum eitthvað byltingarkennt. Við viljum sýna kraft á við þann sem Hariet Tubman bjó að þegar hún flúði úr þrælahaldi en snéri svo aftur á sömu slóðir, hélt út í óvissuna og frelsaði fleiri bræður og systur. Hún frelsaði þrælana á akrinum. Það var hennar fólk. Hún átti ekkert erindi við húsþrælana.
Með stofnun, framboði og nú góðu fylgi Sósíalistaflokksins í kosningum heyrum við háværar kröfur hinna valdalausu um að komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar og að valdið sé fært til fólksins. Til að vinna að því munum við ekki gefa neinn afslátt. Það er engin von að okkur takist að byggja upp sterka hreyfingu hinna valdalausu bundin við samkomulag við hægri öflin og miðjuna í stjórnmálunum. Við munum ekki geta unnið að hagsmunum fólksins á akrinum liggjandi á dýnu í kjallara þrælahaldarans.
Ég sé að ég geti gert meira út á akrinum með kúgaða fólkinu en með því að horfa á það út um glugga á húsi hvíta mannsins. Mig langar að nota þau völd og áhrif sem þið gáfuð mér með því að vinna með ykkur út á akrinum, syngja söngvana með ykkur og skipuleggja hvernig við getum hrakið þrælahaldarann út úr húsinu, burt úr lífi okkar. Ég fæ mig ekki til þess að fara með þau völd og áhrif sem þið færðuð mér inn í húsið og gefa húsbóndanum og húsþrælum hans þau, til að viðhalda valdi hans yfir okkur. Mig langar ekki að verða eins og húsbóndinn. Þegar húsbóndinn og húsþrælarnir hæla mér og vilja benda á hvað ég er klár og fín, hvað ég myndi passa vel í þeirra hóp, veit ég að ég verð að vara mig. Öll barátta mín í gegnum fátækt, fordóma og valdaleysi var ekki háð til að sleppa inn í hvíta húsið og skilja aðra eftir á akrinum.
Ég hlakka til að vinna með ykkur að uppbyggingu öflugrar fjöldahreyfingar hinna valdalausu. Ég hlakka til að þjóna ykkur, vera rödd ykkar inn í borgarstjórn. Til að sinna því mun ég dvelja í baráttu ykkar hvar sem hún er háð. Þaðan mun ég sækja erindi ykkar og gera það erindi að mínu inn í borgarstjórn. Með því að hafna dýnunni í kjallaranum í hvíta húsinu er ég ekki að hafna völdum. Með því að hafna dýnunni er ég tryggja að ég geti sótt mér vald og afl í baráttu ykkar. Það er bara ein leið til valdaleysis fyrir okkur þrælana á akrinum, það er að yfirgefa hópinn og gerast húsþræll.
Sanna Magdalena Mörtudóttir