Marinó G. Njálsson gefur ekki mikið fyrir kæru og kröfur, Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, eftir tapið í kosningunum.
Marinó skrifar:
„Þegar menn tapa kosningum, þá missa menn greinilega glóruna. Elliði vill að talningarmenn í Reykjavík eða Egilsstöðum eða Ísafirði telji örfá utankjörfundaratkvæði sem skilað er á kjördag og láti svo vita um niðurstöðuna. Honum er greinilega alveg sama um að kosningar eigi að vera leynilegar!
Sjáum til. Fimm utankjörfundaratkvæði bárust frá Valhöll og hefðu þá verið send til talningar í Reykjavík. Upplýsingarnar um talninguna, þ.e. fimm atkvæði sem fallið hefðu í skaut D-lista (eða einhverjum öðrum lista) hefðu síðan borist til kjörstjórnar í Vestmannaeyjum ásamt nöfnum kjósenda. Ég efast um að talningin hefði uppfyllt ákvæði kosningarlaga um leynd, þar sem kjörstjórn hefði getað tengt þessi fimm atkvæði við upplýsingar um niðurstöðu talningarinnar.
Segjum nú sem svo, að eitt atkvæða hefði komið frá Eyjamanni stöddum á Ísafirði. Þá hefði verið alveg ljóst hvaða lista viðkomandi studdi og því verið brotið á rétti viðkomandi til leynilegra kosninga. Svo vill Elliði kæra atkvæði sem birt var á samfélagsmiðli að frumkvæði kjósandans! Ég held að hann skilji ekki hversu kjánalegt þetta er hjá honum.
Enn kjánalegra var fréttin um daginn, að hann hefði tæmt skúffurnar í borðinu sínu fyrir kjördag. Hann virtist hafa gleymt því, að umboð hans rennur ekki út fyrr en 15 dögum eftir kjördag og hann þarf að gegna stöðu sinni sem bæjarstjóri fram að því.“
Greinin er tekin af Facebooksíðu Marinós.