- Advertisement -

Þegar Kristrún kraup fyrir SFS

Mögulega stafar málflutningurinn af fáfræði eða þá að Kristrún telji að leiðin til ráðherradóms sé að mæta á fund SFS og bugta sig og beygja.

Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins, skrifar:

Stjórnmál Sú hugsun skaut upp kollinum að hafa horft á innlegg formanns Samfylkingarinnar á ársfundi SFS fyrr í mánuðinum, á hvaða þvælingi er Samfylkingin nú?

Í pallborði hélt Kristrún því fram að staða íslensk sjávarútvegs sé mun betri en Norðmanna og ekki mætti breyta einu né neinu í atvinnugreininni öðru en mögulega að auka skatta á sjávarútveginn.

…á Íslandi voru þjóðartekjur á mann einu hæstu í heimi…

Hún talaði um að kerfið hefði leitt til verðmætasköpunar og helst mátti skilja að allt hafi verið í kaldakoli á landinu bláa fyrir daga kvótans, en staðreyndin er sú að á Íslandi voru þjóðartekjur á mann einu hæstu í heimi fyrir daga kvótakerfisins, en landið var í 9 sæti á heimslistanum árið 1980.

Hafa ber í huga að á þeim tíma voru færri stoðir undir íslensku efnahagslífi en nú m.a. mun minni stóriðja og fábrotin ferðamennska. Á hinn bóginn var rekinn öflugur sjávarútvegur sem skilaði verðmætum út í samfélagið, en nýlegt svar matvælaráðherra staðfesti hún að aflinn sé mun minni nú í öllum fisktegundum en áður en þær voru kvótasettar.

Með öðrum orðum kerfið hefur algerlega beðið skipbrot. Undarlegt var að horfa upp á Kristrúnu éta upp vitleysuna í Sigurði Inga fjármálaráðherra um að íslenskur sjávarútvegur sé að skila 20 til 30% hærra verði fyrir afurðir sínar en sá norski.

Mögulega átti þetta við fyrir nokkrum áratugum en ekki nú þar sem Norðmenn hafa siglt hægt en örugglega fram úr íslenskum sjávarútvegi, enda var öllum helstu íslensku vörumerkjunum slátrað. Ekki bætti úr skák að helstu greifarnir í útvegnum urðu uppteknir við að selja íslenskan fisk í gegnum skúffufélög í skattaskjólum.

Mögulega stafar málflutningurinn af fáfræði eða þá að Kristrún telji að leiðin til ráðherradóms sé að mæta á fund SFS og bugta sig og beygja.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: