Endurbirt frétt – af gefnu tilefni.
Stjórnmál Hvenær eiga ráðherrar að segja af sér? Aldrei? Jú, Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér fyrir rúmum tuttugu árum. Ekki síst til að skaðpa frið um störf ráðuneytisins.
Dómsmálaráðherra Noregs sagði af sér núna en íslenski dómsmálaráðherrann sem hefru staðið í ströngu fer hvergi.
Hér er upprifjun af afsögn Guðmundar Árna.
Afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar, þáverandi félagsmálaráðherra fyrir rúmum tuttugu árum, er mest umtalaða afsögn í íslenskum stjórnmálum. Guðmundur Árni hafði óskað eftir að Ríkisendurskoðun tæki út embættisverk sín. Hér er stuðst við fréttaskýringu Morgunblaðsins af málinu.
Hann hélt blaðamannafund þar sem hann tilkynnti afsögn sína, en hann hafði áður sent Davíð Oddsyni forsætisráðherra lausnarbeiðni. Hann sagði, á fundinum ljóst, að niðurstaða Ríkisendurskoðunar, jafn góð og hún væri, myndi engu breyta í opinberri umræðu um sig og störf sín, þar sem menn hefðu ekki áhuga á að ræða málefnin í því sambandi. Hann sagði að umfjöllun fjölmiðla og annarra um sig og störf sín, sem hefði sjaldnast byggst á málavöxtum heldur fyrst og síðast á endurtekningum, hefði augljóslega skaðað sig og haft skaðvænleg áhrif á störf sín í félagsmálaráðuneytinu.
Með því að biðjast lausnar frá embætti félagsmálaráðherra sagðist Guðmundur Árni hafa brotið blað í íslenskri stjórnmálasögu. Hann hefði tekið ákvörðun um að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri og sagt af sér embætti án sakarefna og þrýstings eftir að hafa ráðfært sig við fjölmarga stuðningsmenn sína sem hefðu látið í ljós mjög misjafnar skoðanir á málinu.
„Ég horfi til míns flokks, sem á hefur verið hamrað sýknt og heilagt og ég vil freista þess að hann fái sanngjarna og hlutlæga umfjöllun. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur sem þingmaður og varaformaður flokksins til að tryggja að svo verði,“ sagði Guðmundur Árni.
Rétt stjórnsýsla
Guðmundur Árni fór yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar á fundinum og sagði að hún staðfesti í einu og öllu að stjórnsýsla hans hefði verið í samræmi við reglur og venjur. Hann sagði að skýrslan væri í öllum aðalatriðum í samræmi við skýrslur um úttektir Ríkisendurskoðunar á öðrum ráðuneytum og ríkisstofnunum, að öðru leyti en því að þær skýrslur væru ekki birtar opinberlega. Það væri nú gert í fyrsta skipti.
Hann fjallaði lauslega um þann hluta skýrslunnar sem fjallar um almenna stjórnsýslu ráðuneytisins og sagði að Ríkisendurskoðun segði kvitt og klárt að þar væri allt með felldu.
Síðan kom Guðmundur Árni að þeim hluta skýrslunnar sem fjallar um þau einstöku embættisverk hans, sem helst hafa verið gagnrýnd. Ríkisendurskoðun fjallar ítarlega um aðdraganda starfsloka Björns Önundarsonar tryggingayfirlæknis í nóvember á síðasta ári, en hann fékk greiddar 3 milljónir króna vegna uppgjörs á áunnu námsleyfi gegn því að hann segði upp störfum.
Minnisblað í skúffu
Í skýrslunni er rakið ýtarlegt minnisblað ríkislögmanns um lögmæti þess að segja Birni bótalaust upp störfum, en það minnisblað var afhent ráðherra 10. eða 11. nóvember á síðasta ári. Fram kemur að embættismenn ráðuneytisins hafi ekki kannast við að hafa séð minnisblaðið fyrr en 4. október á þessu ári þegar það fannst í skrifborði heilbrigðisráðherra, og ekki var á það minnst í greinargerð sem félagsmálaráðherra lagði fram um verk sín í lok september síðastliðnum.
Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði mátt vera ljóst að mjög ólíklegt væri að hugsanleg ákvörðun hans að bjóða Birni að segja upp starfi sínu eða víkja honum úr starfi ella, myndi baka ríkissjóði bótaskyldu. Að taka ákvörðun um svo umtalsverð fjárútlát fyrir ríkissjóð vegna starfsloka Björns, þrátt fyrir afdráttarlausa og vel rökstudda niðurstöðu embættis ríkislögmanns um að skilyrði væru til að víkja honum úr starfi, er að mati Ríkisendurskoðunar aðfinnsluverð meðferð á almannafé.
Guðmundur Árni sagðist vera ósammála þessari niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og sagði þvert á móti líklegt að ríkissjóður hefði beðið skaða af brottvikningu læknisins. Guðmundur sagði að álit ríkislögmanns hefði ekki verið neitt leyndarmál á sínum tíma, og greint hefði verið frá því í fréttum að það hefði borist ráðherra. Hins vegar hefði hann leitað álits víðar og sín skoðun hefði verið og væri sú, að áhættan af því að láta reyna á dómsmál og skaðabótamál hefði verið meiri en sú leið sem farin var.
Guðmundur Árni vísaði meðal annars til þess að 25 mál hefðu farið til Hæstaréttar vegna brottreksturs ríkisstarfsmanna. 15 málum hefði ríkið tapað en unnið 10.
Náði markmiðinu
„Meginmálið er að viðkomandi einstaklingur lét af störfum. Því markmiði náði ég og það var meira en gert hafði verið fram að því. Og raunar miklu meira en aðrir hafa gert í sambærilegu máli,“ sagði Guðmundur Árni og bætti við að einn af læknunum fjórum sem ákærðir voru fyrir skattsvik væri enn í opinberu starfi sínu en heyrði undir annan ráðherra. „Ég hef ekki heyrt neinn fréttamann spyrja þennan ráðherra hvort eðlilegt sé að hann gegni áfram störfum sínum eins og ekkert hafi í skorist,“ sagði Guðmundur Árni. Um er að ræða læknaprófessor hjá Háskóla Íslands, sem heyrir undir menntamálaráðherra.
Guðmundur Árni sagði einnig að ríkislögmaður væri ekki dómstóll heldur gagn sem ráðherrar gætu óskað eftir umsögnum um mál. „Ég minni á, að ekki fyrir margt löngu í umræðu um hans stöðu, lagði einstakur ráðherra til að embætti hans yrði lagt niður. Ég minnist einnig þess að annar ráðherra í kjötmáli taldi niðurstöðu hans algerlega út í hött. Það gerði ég ekki. Ég mat hana og vóg og niðurstaða mín var þessi,“ sagði Guðmundur Árni. Hann vísaði þarna til ummæla Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra um embætti ríkislögmanns á síðasta ári.
Siðferðisdómar
Ríkisendurskoðun gagnrýnir einnig uppgjörið við Björn, en Guðmundur Árni sagði að það hefði verið mál til þess bærra embættismanna. „Þá leggur Ríkisendurskoðun sitt siðferðislega mat á hvort rétt hafi verið að óska eftir starfskröftum þessa einstaklings við sérverkefni. Um það ætla ég ekki að fjölyrða en spyr samt hvort það sé á verksviði Ríkisendurskoðunar að kveða upp slíka dóma. Ég gerði það hins vegar sjálfur á blaðamannafundi fyrir rúmum mánuði og sagði þá að að vandlega athuguðu máli hefði ég ekki átt að gera þetta og hefði því gert mistök. Það get ég endurtekið hér,“ sagði Guðmundur Árni.
Ríkisendurskoðun setur spurningarmerki við 345 þúsund króna greiðslu til Hrafnkels Ásgeirssonar fyrir þriggja og hálfrar blaðsíðu langt lögfræðiálit og dregur einnig í efa þörf á því að fá utanaðkomandi lögmann til að semja umrætt álit. Guðmundur Árni sagði að stundum væri eðlilegt að kalla á utanaðkomandi aðstoð. Lögmenn ráðuneytisins væru yfirleitt höfundar lagafrumvarpa og reglugerða sem ráðuneytið setur og við endurmat á því væri æskilegt að sækja álit út fyrir stofnunina.
Ríkisendurskoðun setur einnig spurningarmerki við verksamning við upplýsingafulltrúa heilbrigðisráðuneytisins. Guðmundur benti á að slíkir verksamningar færðust í vöxt innan ráðuneyta og á því kynnu að vera þær eðlilegu skýringar að ráðherrar vildu hafa rýmra spil en ella um starfslok.
Spilin á borðið
Guðmundur Árni sagðist síðan vera ánægður með skýrslu Ríkisendurskoðunar í öllum meginatriðum. „Ég sagði, þegar ég bað um þessa skýrslu, að Ríkisendurskoðun yrði aldrei hinn endanlegi dómari í þeim álitaefnum sem hér eru upp komin. Megintilgangurinn var sá að ég hafði lagt spilin á borðið og vildi gera það með fullkomlega skýlausum hætti. Það hefur enginn ráðherra, hvorki fyrr né síðar, gert svipað þessu. Og ég vil nota tækifærið og hvetja eindregið kollega mína, fyrr og síðar, til þess að viðhafa svipuð vinnubrögð og ég hef gert og opinbera stjórnsýslu sína. Ekki síst vil ég beina þeim ábendingum til þeirra einstaklinga, sem sérstaklega hafa staðið upp og gagnrýnt mig og mín störf. Þar nefni ég sérstaklega formann Alþýðubandalagsins sem gegndi embætti fjármálaráðherra frá 1988 til 1991,“ sagði Guðmundur Árni.
Hann sagði að Ríkisendurskoðun hefði gert úttektir á gerðum ýmissa annarra ráðherra og nefndi nokkur tilvik þar sem komið hefði fram hörð gagnrýni frá stofnuninni á embættisverk þeirra.
„Ég minnist þess ekki að nokkur hafi beðið um afsögn ráðherra af þessum sökum eða að þeim hafi dottið í hug eitt andartak að taka þessa einkunn Ríkisendurskoðunar með þeim hætti að þeim bæri að fara frá. Þetta er athyglisvert í ljósi þeirrar einkunnar sem Ríkisendurskoðun gefur mér og mínum störfum þegar umræðan hefur þvert á móti farið í þann farveg af hálfu fjölmiðlamanna og ákveðinna stjórnarandstæðinga, en ekkert væri annað í spilum félagsmálaráðherra en segja af sér,“ sagði Guðmundur Árni Stefánsson.