Fréttaskýring Tíu ár eru frá því að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, staðfesti ekki ný lög um fjölmiðla. Það var ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og hann sjálfur, sem barðist fyrir lögunum.
Segja má að afleiðingarnar þessa máls hafi verið stærsta skrefið í brotthvarfi Davíðs úr stjórnmálum. Eftir þetta lá leið hans niður á við. Hann barðist hart fyrir framgangi málsins í eigin flokki og í ríkisstjórninni.
Ætlaði að stoppa Fréttablaðið
Þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sýndi samráðherrum sínum fjölmiðlafrumvarpið í fyrsta sinn var í því ákvæði um mjög takmarkandi möguleika til útgáfu dagblaða. Frumvarpið átti meðal annars að breyta prentlögum, íþyngjandi fyrir útgefendur. Fullyrt var af mörgum að vilji Davíðs hafi fyrst og fremst verið að setja Fréttablaðinu skorður. Það hafði náð yfirburðastöðu, þ.e. umfram Morgunblaðið, og eins hafði Davíð verið ósáttur við blaðið frá frysta degi.
Hannes Hómlsteinn Gissurarson sagði í Mannamáli þætti sem Sigmundur Ernir Rúnarsson stýrði á Stöð 2, um Davíð, Baugsmenn og Fréttablaðið: „Það sem Davíð hefur kannski fundist að á tímabili voru þeir Baugsmenn að misnota sitt fjármagn með því að vera með blöð sem beittu sér gegn honum …“
Á ríkisstjórnarfundinum, þegar Davíð opinberaði fyrsta frumvarpið, gerði Halldór Ásgrímsson athugasemdir við frumvarp Davíðs, einkum kaflann um prentréttinn. Í fyrri bók Guðna Ágústssonar segir að þegar Davíð kynnti frumvarpið hafi Halldór brugðist hinn versti við. Davíð henti þá frumvarpinu í Halldór og sagði honum að breyta því. Eftir það var aldrei rætt um breytingar á lögum um prentrétt.
Þrátt fyrir fyrstu afstöðu Halldórs rak hann málið áfram í eigin flokki. Þegar tvær grímur runnu á hvern þingmanninn af öðrum, boðaði hann leynifund og á fundinn kallaði hann alla þingmenn flokksins, nema Kristinn H. Gunnarsson sem þá var þingmaður Framsóknaflokksins, en honum treysti Halldór ekki. Halldór fundaði með hverjum og einum þingmanni, í von um að fá þá alla til að standa með sér í málinu. Þingmönnum fannst sem þeir þyrftu að velja á milli framtíðar flokksins og þingsins, þeir vildu frekar velja framtíð flokksins. Halldór var í vanda, þingflokkurinn var að snúa við honum baki.
Spennan var mikil í íslenskum stjórnmálum. Svo fór að forseti Íslands sagði nei í fyrsta sinn og málið var tekið til baka, fór aldrei í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Upphaflega frumvarp Davíðs
Hér er má lesa upphaflega frumvarp Davíðs, frumvarp sem átti eftir að hafa mikil áhrif og nú eru tíu ár liðin frá þessum miklu atburðum í íslenskum stjórnmálum.
„Frumvarp til laga
um breytingar á útvarpslögum og lögum um prentrétt
Dagblaðakaflinn
„Útgefandi dagblaðs skal ekki hafa aðra óskylda starfsemi með höndum. Þá er markaðsráðandi fyrirtæki, félagi eða lögpersónu í öðrum rekstri óheimilt að eiga eignarhlut í fyrirtæki, félagi eða lögpersónu, sem hefur útgáfu dagblaðs með höndum. Sama á við um einstaklinga sem eiga ráðandi hlut í slíkum fyrirtækjum, félögum eða lögpersónum. Útgefendum og eigendum dagblaða er á hverjum tíma skylt að veita dóms- og kirkjumálaráðherra upplýsingar er gera honum kleift að meta hvort skilyrðum málsgreinar þessarar er fullnægt.
Heimilt er dóms- og kirkjumálaráðherra að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 til 500.000 á dag til að knýja á um að ákvæðum 2. mgr. verði framfylgt. Dagsektir þessar verða lagðar á þá aðila sem með ólögmætt eignarhald fara og eru aðfarahæfar.“
Í greinagerðinni segir:
„Í þessari grein er við það miðað að fyrirtæki, félag eða lögpersóna, sem hefur dagblaðaútgáfu sem meginmarkmið skuli ekki jafnframt hafa aðra óskylda starfsemi með höndum.“ Síðar segir: „Enn fremur er gert ráð fyrir að markaðsráðandi fyrirtækjum í öðrum rekstri sé óheimilt að eiga eignarhlut í fyrirtæki í dagblaðaútgáfu.“ Og að lokum er þessi tilvitnun: „Nauðsynlegt er að dóms- og kirkjumálaráðuneytið sem eftirlitsaðili með framkvæmd laga um prentrétt hafi greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um eignarhald útgefenda og eigenda dagblaða til að meta hvort skilyrðum laganna er fullnægt.“
Ljósvakakaflinn:
Útgáfa útvarpsleyfis er háð eftirfarandi skilyrðum um eignarhald:
- Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis, félags eða lögpersónu sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri. Einnig er óheimilt að veita félagi, fyrirtæki eða lögpersónu útvarpsleyfi sem að hluta eða öllu leyti er í eigu markaðsráðandi fyrirtækis í óskyldum rekstri. Þá er óheimilt að veita útvarpsleyfi félagi, fyrirtæki eða lögpersónu, sem hefur með höndum útgáfu dagblaðs eða á eignarhluti í fyrirtækjum í dagblaðaútgáfu, beint eða í gegnum önnur félög, fyrirtæki eða lögpersónur.
- Við veitingu útvarpsleyfa til einstaklinga skal útvarpsréttarnefnd jafnframt hafa það atriði í huga, sem nefnd eru í a-lið, þ.á m. hvort aðili eða fyrirtæki honum tengd, eru markaðsráðandi á öðrum sviðum viðskiptalífs eða í dagblaðaútgáfu.
- Með umsóknum um útvarpleyfi skulu fylgja upplýsingar sem gera útvarpsréttarnefnd kleift að meta hvort skilyrðum a- og b-liðar sé fullnægt.
- Skylt er þeim aðilum sem útvarpleyfi hafa að tilkynna um allar breytingar sem verða á eignarhaldi leyfishafa eða þeirra félaga, fyrirtækja eða lögpersóna sem eignarhlut eiga í leyfishafa. Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað útvarpsleyfi, ef breytingar verða á eignarhaldi þannig að í bága fari við ákvæði þessarar málsgreinar.“