Viðhorf Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist aldrei heyra nokkurn kjósenda deila áhuga á stjórnarskrármálinu eða kosningum um aðildarviðræður að Evrópusambandinu, með Birgittu Jónsdóttir Pírata.
„Ekki einn einasti kjósandi sem ég hef hitt undanfarið hefur þó minnst á þessi tvö stóru mál, ekki einu sinni unga fólkið sem ég hitti helst á öldurhúsum bæjarins,“ skrifar Brynjar á Facebook.
Fáa skal undra þar sem helsta baráttummál ungra kjósenda Brynjars er að áfengi verði selt sem víðast svo aðgengi að því verði sem mest. Ljóst er að því, sem þingmaðurinn skrifar, að áhugi ungra kjósenda Sjálfstæðisflokksins á áfengisfrumvarpinu dvínar ekki þó unga fólkið sitji við skál á börum borgarinnar.
Hér að neðan er öll færsla Brynjar Níelssonar:
„Fram kom í máli helsta forystumanns Pírata, Birgittu Jónsdóttur, að tvö stóru mál þeirra fyrir næstu kosningar eru að kjósa um áframhaldandi aðildarumsókn að ESB og stjórnarskrá stjórnlagaráðsins sáluga, sem bæði innlendir og erlendir stjórnlagaspekingar töldu ónothæft plagg. Ekki einn einasti kjósandi sem ég hef hitt undanfarið hefur þó minnst á þessi tvö stóru mál, ekki einu sinni unga fólkið sem ég hitti helst á öldurhúsum bæjarins.
Nú er það svo að varla nokkur maður telur brýnt að halda áfram aðildarferli í samband sem stendur á brauðfótum og virðist vera að molna innan frá. Þau atriði sem almenningur telur brýnt að bæta í stjórnarskrá, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og auðlindaákvæði, er klárt í þverpólitískri stjórnarskrárnefnd, þótt ég þykist vita að sumir innan Pírata vilji splundra starfi nefndarinnar og eyðileggja þá samstöðu sem þar hefur náðst.
Að lokum vil ég taka það sérstaklega fram að ég er í hópi þeirra sem elska Birgittu Jónsdóttur.“