- Advertisement -

Þau ríkustu eiga nú nánast allt viðskiptalífið, eiga þau líka ríkisvaldið?

Morgunblaðið birtir upplýsingar um að aðeins um eitt þúsund manns eigi nánast allt eigið fé í íslenskum fyrirtækjum. 0,3 prósent þjóðarinnar á nánast allt viðskiptalífið.

Úr viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

Samfélag „Einungis 1.000 manns eiga nánast allt eigið fé einstaklinga í íslensku atvinnulífi. 10 eignamestu eiga þriðjung alls þess eigin fjár í fyrirtækjum sem er í höndum einstaklinga,“ þetta segir í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

Fyrstu spor ríkisstjórnarinnar sýna að hún gengur frekar erinda þessa hóps en annarra. Skattabreytingar voru gerðar í þeim tilgangi að auka enn á mun þessa fólks og þeirra sem eiga í raunverulegu basli. Sama gerðist þegar ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögur um litla bót á barnabotum sem og húsnæðisbótum. Í ofanálag er nú unnið hörðum höndum að því að létta veiðigjöldum af útgerðinni.

Það væri gaman að sjá hvaða einstaklingar þetta eru sem eiga nær allt viðskiptalífið og hversu margir þeirra hafa auðgast með ódýrum aðgangi að auðlindinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Samkvæmt sérstakri samantekt Creditinfo fyrir ViðskiptaMoggann er meira en helmingur alls eigin fjár í íslenskum fyrirtækjum sem er í höndum einstaklinga í eigu aðeins 50 aðila, eða 53,4%. Í krónum talið er hér um tæplega 650 milljarða króna eignarhlut að ræða í bókfærðu eigin fé, „ segir einnig í Mogganum.

Röktu flækjuna

Um árabil hefur það verið stundað að gera eignarhald fyrirtækja sem flóknast. Það er gert til að sem erfiðast verði að sjá hið rétta eignarhald.

Vitnum aftur í Moggann: „Eignarhlutar einstaklinganna eru gjarnan í gegnum eitt eða fleiri eignarhaldsfélög, en í samantektinni var notuð sú virkni í kerfum Creditinfo að rýna í endanlega eigendur allra íslenskra fyrirtækja. Þessar tölur undanskilja eignir lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta, en í gegnum slíka fjárfesta eiga flestir Íslendingar sína hlutdeild í íslensku atvinnulífi.“

Enn er vitnað í Morgunblaðið.

0,3 prósent með allt

„Sé haldið áfram að rýna í tölurnar má sjá að einungis 1.000 einstaklingar eiga nánast allt eigið fé einstaklinga í íslenskum fyrirtækjum, eða rúm 98%,“ segir í Mogganum. „Þannig má segja að um 0,3% allra Íslendinga eigi nær öll íslensk fyrirtæki, fyrir utan það sem stofnanafjárfestar halda á. Hér er einungis átt við einstaklinga en ekki sameiginlega eign hjóna eða fjölskyldna,“ segir og þar.

Og þá er best að klára frétt Moggans: „Úr upplýsingunum, sem eru unnar upp úr ítarlegum gögnum Creditinfo um 31.000 íslensk fyrirtæki, má sjá að 10 eignamestu einstaklingarnir eiga um þriðjung af öllu eigin fé einstaklinga í íslensku atvinnulífi, eða 31,5%. 500 eignamestu einstaklingarnir eiga samkvæmt samantektinni 89,3% alls eigin fjárins og þeir 100 efnamestu eiga 64,9%.“

Bjarni Benediktsson, eða hið minnsta hans fólk, hefur mikilla hagsmuna að gæta.

Engra breytinga að vænta

Mörgum kann að þykja þetta óréttlátt skipti. Því fólki er best að gera sér grein fyrir að engra breytinga er að vænta. Fólkið bak við tölurnar sem hér hafa verið birtar ræður framhaldinu. Það hefur til dæmis sést glöggt á fyrstu skrefum núverandi ríkisstjórnar. Valdamesti maður Íslands, Bjarni Benediktsson, kemur úr þessum hópi og hefur gætt hagsmuna hans. Ekkert lát er sýnilegt á því. Sem meðal annars sést á að hann er varinn með opinberum fréttabanni.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: