Greinar

Þau fá fullkomna falleinkunn

By Miðjan

December 13, 2019

Þau sem bera mestu ábyrgðina verða að finna til alvörunnar og byrja strax á að bæta það sem þarf. Strax í dag.

Íslensk stjórnvöld fá fullkomna falleinkunn. Innviðir samfélagsins eru grautfúnir. Á þeirra vakt. Sem og fyrrverandi ríkisstjórna. Frammistaða þeirra er óviðunandi með öllu. Mannslífum er stefnt í voða. Meira að segja sjúkrastofnanir hafa ekki rafstöðvar. Lán er að mannskaði varð ekki þess vegna.

„Í kjölfar víðtæks rafmagnsleysis duttu öll samskipti út, farsímasamband og Tetra-kerfi lögreglu. Lífsspursmál er að íbúar sveitarfélagsins geti náð í viðbragðsaðila ef alvarleg slys eða veikindi ber að höndum. Hlutverk fjölmiðla er mjög mikilvægt í aðstæðum líkt og sköpuðust síðustu daga og þá sérstaklega er litið til öryggishlutverks Ríkisútvarpsins sem brást algerlega. Dreifikerfi RÚV lá niðri víða í sveitarfélaginu og náðust sendingar illa eða alls ekki. Almennri upplýsingagjöf til íbúa um stöðu og horfur var ekki sinnt. Litlar sem engar fréttir bárust frá Húnaþingi vestra þrátt fyrir að veðuraðstæður væru hvað verstar á þessu svæði og útvarpið nær eina leið íbúa til að fá upplýsingar. Ótækt er að vísað sé til vefsíðna til frekari upplýsinga um stöðu mála þegar hvorki er rafmagn né fjarskiptasamband.“ Þetta er úr bókun íbúa á norðurlandi.

Alvaran er algjör. Mest vegna þess að það fólk sem hefur kosið sjálft að vera ábyrgt fyrir uppbyggingu samfélagsins sinnti ekki þeim verkum sem það sjálft sóttist eftir að gera. Auðvitað er fyrst horft til núverandi stjórnvalda. Þau sem á undan fóru bera líka ábyrgð á að stefna fjölda í bráða lífshættu og eins teflt á tæpasta hvað varðar heilsu og velferð.

Í stað þess að sinna því sem þarf að sinna eru stjórnendur landsins uppteknir þessa dagana við að keyra mál í gegnum Alþingi sem hraðast til að þingmenn komist í langþráð jólafrí, um miðjan desember. Takk fyrir.

Hversu hörmulega tókst til verður seint eða aldrei bætt. Þau sem bera mestu ábyrgðina verða að finna til alvörunnar og byrja strax á að bæta það sem þarf. Strax í dag.