Það er mikils virði fyrir okkur að hafa gott fólk sem fer með forræði okkar, hér og þar. Við Íslendingar erum lánsöm. Svo ekki sé meira sagt.
Borginni stýrir Dagur B. Eggertsson sem hefur nú unnið sér það til tekna að laun forstjóra Orkuveitunnar eru komin í þrjár milljónir á mánuði. Dagur getur sest niður, slegið saman lófunum og gengið síðan keikur til kosninga. Svona maður er ósigrandi. Bjarni forstjóri kominn með þrjár milljónir. Allt annað má bíða. Dagur hefur náð settum markmiðum á kjörtímabilinu. Væll um húsnæðismál, svifyrk og annað slíkt má sín lítils, þegar Bjarni Bjarnason hefur þrjár milljónir á mánuði.
Katrín Jakobsdóttir situr stjórnarráðshúsið við Lækjartorg. Hún getur, rétt einsog Dagur borgarstjóri, fagnað innilega. Magnús Geir útvarpsstjóri er kominn með tvær milljónir á mánuði. Þarf þessi blessaða þjóð eitthvað frekar? Nei, auðvitað ekki. útvarpsstjórinn er orðinn maður með mönnum og þjóðinni er létt. Þetta er allt annað líf, allt annað líf. Væll um biðlista, gatnakerfi, skólana og allt hitt má sín lítils. Magnús Geir er slopppinn inn í ríkramannaklúbb Íslands.
Svona á fólk að vera. Einsog Dagur og Katrín. Tryggja Íslands bestu sonum aðgang að stórustrákaklúbbunum. Annað fólk verður að fagna með og vera ekki með neitt væl. Réttlætinu er eflaust náð. Hið minnsta að mati þess fólks sem fer með prókúru samfélagsins.
Sigurjón M. Egilsson.