- Advertisement -

ÞARF ÞJÓÐIN SIÐFERÐISÁTTAVITA?

Við samþykkjum þessa hegðun með því að kjósa þá sem við kjósum.

Sæunn Emilia Tómasdóttir skrifaði:

Spilling er óafneitanleg í íslensku þjóðfélagi. Í gegnum árin koma í ljós ósmekkleg, ófagmannleg og illa álitin hegðun opinbers starfsfólks ríkisins sem og í einkageiranum. Öll getum við ábyggilega nefnt ófá dæmi um spillingu, fjársvik eða siðskertu sem hefur fengið að líta dagsins ljós. Við höfum okkar skoðanir og tilfinningar gagnvart þeim málum en fáfræðin hlýtur að vera sæla fyrir okkur sem að hneykslumst á málunum sem koma í ljós. Þangað til við áttum okkur á því að dæmin sem við gætum nefnt geta ábyggilega verið svo miklu fleiri ef við bara vissum.

Sælan er þó ekki bara okkar heldur líka þeirra sem komast enn upp með sín spilltu fyrirtæki, spilltu valdastöður og sýna siðskertu gagnvart almenningi. Málin sem hafa verið uppljóstruð hljóta að vera einungis brot af því sem ágengur bak við tjöldin. Hvað annað gengur á sem við vitum ekki af? Kannski er einhver að vinna að því að uppljóstra næsta skandal íslenska þjóðfélagsins en er samt ekki kominn tími til að lýtast í augu við rót vandans?

Siðferði er ekki mjög rótgróin í íslenskt samfélag.

Siðferði er ekki mjög rótgróin í íslenskt samfélag. Ísland er ung þjóð sem þroskaðist og heldur áfram að þroskast á tíma þar sem upplýsingaöflun og tækniþróun fara stigmagnandi. Mögulega týnist eða gleymist eitthvað í ferlinu. Siðferði er mögulega léttast og kannski líka hentugast að týna í ferli þjóðarinnar við að halda í við aðrar. Eins og við sjáum hefur það sínar afleiðingar líka.

Spurningin mín er bara hve mikið vægi hefur siðferði í ákvörðunum og gjörðum stjórnvalda og stjórnendum stórfyrirtækja. Hvernig vitum við sem neytendur að við séum ekki að ýta undir þrælkun með því að styrkja íslensk fyrirtæki. Eða hvort að ávinningur íslensku þjóðarinnar reiði sig ekki á misnotkun aðstæðna þróunarlands í gróðurskyni. Hvernig fáum við siðferði til að spretta sterkum rótum í samfélaginu okkar? Skyldleiki fólks og peningar eru okkur á einhvern hátt alltaf mikilvægari en að gera það sem er rétt og mannlegt. Stjórnvöld landsins eru þar ein helsta fyrirmyndin. Ef fólk, sem var kjörið af íslensku þjóðinni, má svíkja skatt, hjálpa skyldmennum sínum að komast í valdastöðu með því að misnota eigið vald og gera vinum og vandamönnum kleift að komast hjá lögum, af hverju mega þá ekki allir í landinu gera slíkt hið sama?

Ekki má gleyma að margir sem hafa ollið okkur vonbrigðum hafa verið kosnir í þær stöður sem þetta fólk gegnir, í sumum tilfellum oftar en einu sinni. Þá er hegðun þessa fólks líklega bara endurspeglun íslensku þjóðarinnar. Við samþykkjum þessa hegðun með því að kjósa þá sem við kjósum, kannski er það vegna þess að kjósendur nýta sér þetta gráa svæði alveg eins og þeir sem koma fram í fréttum. Í opinberri stöðu ætti það sem litið er hornauga að jafngilda brot á reglu. Af hverju fá sumir glæpamenn undanþágu frá lögum? Af hverju fá glæpamenn að sitja á alþingi og semja lög þjóðarinnar? Finnst okkur best að gleyma því sem upp á kemur en hneykslast síðan aftur og aftur þegar þessi hringrás verður aldrei brotin upp?

Viljum við að landinu okkar sé stjórnað af konungsfjölskyldu.

Hvað er okkur mikilvægt? Að alþingisfólk hafi það sem best fjárhagslega, að hámarka fjölskyldutengsl í valdastöðum? Viljum við að þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku verða fátækari? Viljum við að árangur einstaklings miðast við í hvaða fjölskyldu hann fæðist? Viljum við að landinu okkar sé stjórnað af einhverskonar konungsfjölskyldu sem komst til valda með hvaða hætti sem er, þar sem að bara næsta skyldmenni sem hefur áhuga fær því fram sem það vill? Eða viljum við að hvert ungmenni hafi aðgang að þeirri menntun sem kallar til þeirra án þess að námslán hangi yfir þeim frá ungum aldri í ótal mörg ár? Viljum við takast á við þunglyndisvandamál ungmenna og gefa öllum tækifæri á að öðlast einhverskonar hamingju? Af hverju finnst okkur ekki mikilvægast að gera það sem er réttast fyrir samfélagið? Kannski er þetta óspillt og barnsleg sýn á lífið en kannski er það einmitt það sem þarf.

Yfirvöld hafa gripið til þeirra aðgerða að gera siðferðiskennslu að skyldunámi í framhaldsskólum. Þó að mér finnist það mjög mikilvægt og gott þá held ég að spillingin, sem er án efa landlæg í fyrirtækjum og líklega í hluta ríkisstarfsfólks, hverfi ekki með einum eða tveimur áföngum sem ákveðinn hluti íslenskra ungmenna klára. Hvað er þá meira hægt að gera? Væri hægt að varpa ljósi að gráa svæðið sem við Íslendingar eigum erfitt með með því að semja siðferðissáttmála fyrir ríkisstjórn, alþingi og fyrirtæki til að fara eftir?

Ég vil að við hættum að rækta spillingu á Íslandi, hættum að ala næstu kynslóð upp við þann raunveruleika að spilling sé ásættanleg og við þá trú að eitthvað réttlæti eða jafnrétti sé að finna í spilltu þjóðfélagi. Á meðan að ég trúi að spillingin sé rótgróin í samfélaginu en ekki í okkur sem einstaklingum þá trúi ég að við getum litið á okkur sem siðferðisverur með samúð og réttlætiskennd og stuðlað að réttlátu, fordómalausu og siðprúðu samfélagi, með jöfn tækifæri.

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: