- Advertisement -

Þarf rannsóknarnefnd vegna Íslandsbankasölunnar?

Brynjar Níelsson: Almenningur hlustar á það sem við segjum, við getum tortryggt eitthvað og þá fer það í gegnum samfélagið eins og eldur í sinu.

Meginniðurstaðan er að þetta hafi tekist vel,” sagði Brynjar Níelsson varaþingmaður Sjálfstææðisflokksins, um vinnu Ríkisendurskoðunar vegna sölunnar á Íslandsbanka.

Svo óhönduglega tókst til með söluna að þrætur eru víða hennar vegna. Ekki síst á Alþingi. Höldum áfram með Brynjar:

Ég sagði líka áðan að það mætti finna að einhverju, einhverjar aðfinnslur hér og þar. Ég er að vísu ekkert endilega sammála þeim nákvæmlega, en ekkert af þessum aðfinnslum eða ábendingum Ríkisendurskoðunar gefur okkur tilefni til að skipa rannsóknarnefnd. Það er kjarni málsins. Það er ekkert. Þegar maður horfir hér á og tekur úr álitinu það sem minni hlutinn vill rannsaka, þá eru það einhver lögfræðileg úrlausnarefni. Það gengur ekki upp. Eins og ég sagði áðan líka þá orkar alltaf eitthvað tvímælis. Við getum alltaf sagt að við hefðum getað gert eitthvað betur; betri upplýsingar, undirbúið betur o.s.frv.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég held að við getum sagt það um okkur öll þegar við gerum eitthvað sem er í flóknari kantinum, alveg örugglega. Meira að segja um mig, stundum hefði ég getað gert eitthvað betur. En það er ekki þannig að ég sé að stunda einhver sérstök lögbrot, það sé hneyksli og þurfi einhverja rannsóknarnefnd. Þetta snýst svolítið um það. Við erum að fjalla um þessa kröfu og hvort málinu sé lokið með athugasemdum ríkisendurskoðanda eða hvort við ætlum að fara að skipa mörg hundruð milljóna króna rannsóknarnefnd sem kannski segði bara það sama: Þið hefðuð mátt undirbúa þetta betur eða gæta betur að upplýsingum til almennings.

Ég efast um að það hefði breytt nokkru þótt við hefðum bætt upplýsingagjöf til almennings. Almenningur er ekkert að hlusta á það eða kanna það. Almenningur hlustar á það sem við segjum, við getum tortryggt eitthvað og þá fer það í gegnum samfélagið eins og eldur í sinu. En kjarni málsins er sá að þetta tókst vel og engin ástæða til að skipa rannsóknarnefnd.

Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu sagði:

Ég bara skil það ekki. Ég er alveg dolfallinn.
Jóhann Páll.

Ríkisendurskoðun segir líka að vanmat Bankasýslunnar á eftirspurn eftir bréfunum kunni að hafa skaðað hagsmuni ríkissjóðs. Þetta er líka hluti af þeirri niðurstöðu sem hér er til umfjöllunar. Ég á svo erfitt með að skilja það, vegna þess að ég veit að háttvirtur þingmaður er talsmaður ráðdeildar í ríkisfjármálum og er nú íhaldssamari en andskotinn, þori ég að fullyrða, að honum finnist það svona ofboðslega léttvægt að ganga svona um eignir almennings eins og lýst er í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég bara skil það ekki. Ég er alveg dolfallinn. Mér finnst ótrúlegt að hlusta á háttvirtan þingmann og hvernig hann talar um lögfræðileg úrlausnarefni eins og það sé bara eitthvert grín. Nú liggur fyrir að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill ekki skipa rannsóknarnefnd, en mátti ekki einu sinni láta kanna þessi lögfræðilegu atriði, þessu lögfræðilegu úrlausnarefni sem ríkisendurskoðandi lýsti sig ekki til þess bæran að taka afstöðu til? Er háttvirtur þingmaður ekki sammála mér um að það færi vel á því að við hér á Alþingi létum kanna það sérstaklega hvort stjórnsýslulögum og öllum meginreglum stjórnsýsluréttar hafi verið fylgt við þetta söluferli?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: