Samningurinn við ríkislögreglustjóra stenst væntanlega ekki stjórnsýslureglur.
Haukur Arnþórsson skrifaði:
Ekki verður séð að starfslokasamningur dómsmálaráðherra við Harald Johannessen (HJ) sé (i) samkvæmt reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um starfslok sem hér er tengt í í kommenti (en ráðuneytið fer með starfsmannamál Stjórnarráðsins) eða (ii) lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Ráðherra ber raunar að setja nánari reglur um starfslok skv. 2. mgr. 39. gr. c. laganna – en það hefur ekki enn verið gert þrátt fyrir margar ábendingar þar um, m.a. lagafyrirmæli frá 2016.
Megináhersla Umboðsmanns í frumkvæðisathugun hans 2007 var að ekki væru fyrir hendi lagaheimildir fyrir starfslokasamningum og ef þeir væru gerðir – þyrfti auk þess að gæta að almennum stjórnsýslureglum, svo sem jafnræði og samræmi. Í svari við erindi Umboðsmanns sagði fjármála- og efnahagsráðuneytið að ekki væri heimilt að gera starfslokasamning við ríkisstarfsmenn án sérstakrar lagaheimildar, en hana væri ekki að finna í lögum. Að svo búnu virðist Umboðsmaður láta athugun sína niður falla.
Ríkisendurskoðun skoðaði málið 2011. Þá höfðu um 17% forstöðumanna stofnana fengið starfslokasamning sem bendir til þess að þessar almennu reglur séu sniðgengnar.
Almenna lagareglan er að embættismenn segja upp með þriggja mánaða fyrirvara. Í þessu tilviki er þó samið um styttri frest eða um fimm vikur; fram til 31. des. 2019. Þá tekur við nýtt starf í þrjá mánuði sem út af fyrir sig er eðlilegt að sé greitt fyrir eins og hið fyrra embætti. Með góðum vilja má segja að þá taki við nýr uppsagnarfrestur til 30. júní 2010, sem einnig er eðlilegt að sé á fullum launum – auk þess sem þá getur embættismaðurinn tekið út allt orlof sem hann á og þannig verið á fullum launum – kannski fram í ágúst 2020.
Ef embættismaður segir ekki upp sjálfur – en fullyrt er að HJ hafi sagt upp sjálfur – þá gilda aðrar reglur. Ef starfið er lagt niður gæti hann fengið allt að tólf mánaða laun og ef honum er sagt upp þá gæti hann fengið laun út ráðningartímann – sem er nú fimm ár.
Samningurinn við ríkislögreglustjóra stenst væntanlega ekki stjórnsýslureglur og er þá átt við reglur um jafnræði og samræmi – því tíðkast hefur að þeir séu til sex mánaða ef þeir eru gerðir – og væntanlega ekki heldur lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og afleiddar reglur sem kveða á um þrjá mánuði.
Ekki verður annað séð en Alþingi hefði þurft að setja sérlög um starfslokasamning HJ til þess að hann verði löglegur. Það liti þó sérstaklega illa út því Alþingi á að forðast að setja sértæk lög sem varða einstakar persónur – og hefði auk þess átt að gera þau fyrirfram.