Þarf að skipta Svandísi út?
Er ráðherra kannski búinn að komast að því hvað er fyrir utan boxið? Gaman væri að fá upplýsingar um það.
„Ef svo er þarf að skipta um heilbrigðisráðherra og fá til starfa ráðherra sem lifir í raunheimi, heilbrigðisráðherra sem hefur skilning á stöðu ljósmæðradeilunnar og vilja og umboð til að leysa hana,“ skrifar Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í grein sem birt er í Mogganum í dag.
Þorsteinn skrifar um tvöfalt heilbrigðiskerfi og eins skýtur hann föstum skotum að Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Hann bendir á hversu margt veikt fólk hefur leitað sér lækninga utan opinbera kerfisins.
„Nú eru liðnir tæpir átta mánuðir síðan ráðherrann lagði upp í leiðangur til björgunar íslensku heilbrigðiskerfi. Á þeim tíma hefur ráðherrann farið um líkt og ljár í túni. Í ljáfarinu liggja nú þegar Hugarafl, SÁÁ, Krabbameinsfélagið, Karitas og parkinsonssjúklingar svo fáir séu nefndir. Auk þess hefur ráðherra heilbrigðismála ekkert lagt fram til að leysa kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins heldur talað niður til þessarar rótgrónu kvennastéttar með svipuðum hætti og hún hefur sjálf kallað „frekjukallapólitík“,“ skrifar þingmaðurinn.
Þorsteinn skrifar: „Ljósmæðradeilan er orðin svo alvarleg og hefur svo alvarleg áhrif að það er með ólíkindum að heilbrigðisráðherra skuli ekki hafa stigið fram og tekið þátt í að leysa deiluna. En kannski hefur heilbrigðisráðherra ekki færi til þess. Kannski setur fjármálaráðherra henni stólinn fyrir dyrnar. Kannski er heilbrigðisráðherra í hlutverkinu „Ég, ef mig skyldi kalla“ í ríkisstjórninni.“
Þorsteinn spyr hvort ekki þurfi að fá Heilbrigðisráðherra sem skilur að nefndastörf og starfshópar stytta ekki biðlista, sem skilur að starfshópar lækna ekki sjúka, sem skilur að nú þarf aðgerðir en ekki starfshópa. Heilbrigðisráðherra sem skilur að fjölbreytt úrræði eru af hinu góða, sem skilur að starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfstætt starfandi lækna er ekki ógn heldur nauðsynlegur hlekkur í betri þjónustu og betri og skjótari bata þeirra sem allt þetta snýst um, sjúklinganna!
Og svo þetta: „Því er nauðsynlegt að spyrja heilbrigðisráðherra: Hversu margir sjúklingar sem leita sér bata á einkareknum stofum/klíníkum eru nógu margir til að hér teljist vera tvöfalt heilbrigðiskerfi? Sjötíu? Eitt hundrað? Hver er talan, hæstvirtur heilbrigðisráðherra? Og nú duga ekki orðaleppasvör eða að kíkja út fyrir boxið. Er ráðherra kannski búinn að komast að því hvað er fyrir utan boxið? Gaman væri að fá upplýsingar um það.“