„Hugmyndin um fjölgun opinberra starfa til að koma okkur út úr þessu ástandi er vissulega einhver sú versta sem fram hefur komið. Það er ekki síst vegna þess að opinber störf eru orðin allt of mörg. Þeim verður að fækka til að veita atvinnulífinu og þar með verðmætasköpuninni eðlilegt svigrúm.“
Þannig endar Hádegismóaritstjórinn Staksteina dagsins. Þá er spurt; verður ekki verðmætasköpun til með störfum hjá hinu opinbera? Eða eru menn bara að rugla?
Ætli sjúkrahúsin skapi ekki meiri verðmæti en nokkur annar vinnustaður. Það eru aldeilis verðmæti þegar tekst að koma veiku fólki eða slösuðu aftur til starfa, til þátttöku í samfélaginu. Geta aðrir boðið betur?
Og hvað með menntakerfið? Alla skólana? Fæst ekki verðmætasköpun með aukinni menntun? Hvaða rugl er þetta eiginlega? Ritstjórinn vitnar til formanns flokksins, Bjarna Ben, sem sagði um þá hugmynd að ríkið fjölgaði starfsfólki í því árferði sem hér er:
„Þetta er einhver versta hugmynd sem ég heyrt, að nú sé ástæða til að fara að stórfjölga opinberum störfum.“
Þröngsýnin gengur greinilega í erfðir í Valhöll.
-sme