Sigurjón Magnús Egilsson skrifar: Enn og aftur voru fréttatímar gærkvöldsins vitni um ómannúð ríkisvaldsins. Hugsun hins harða stálhnefa ræður og stjórnar. Það var stjórnarþingmaðurinn Óli Björn Kárason sem fyrstur notaði orðbragðið. Þegar hann sagði að Íslendingar eigi að mæta flóttafólki með hinum harða stálhnefa.
Nú er harði stálhnefinn notaður víðar. Í fréttatímum gærkvöldsins var sagt frá að börn fá ekki nauðsynlegar læknisaðgerðir. Þurfa að bíða í óvissu svo mánuðum skiptir. Á viðkvæmasta tíma lífs þeirra. Afleiðingarnar geta verið þær að þau nái ekki að fylgja jafnöldrum í þroska. Með stórtjóni fyrir þau og samfélagið.
Hinn svokallaði barnamálaráðherra stökk á flótta og svaraði ekki fréttastofu um málið. Hann hafði samt tíma til að skrifa grein í Fréttablaðið. Grein sem enginn á að lesa. Ráðherrann verður fyrst að standa sína plikt.
Vilji löggjafans kemur skýrt fram hvað varðar öryrkja. Samin hafa verið lög á Alþingi sem leggjast nú svo hart á öryrkja að þeir eru sviptir stórum hluta launa sinna. Tryggt er að þeir eigi hvorki til hnífs né skeiðar. Þetta hefur verið látið viðgangast fyrir opnum augum ráðafólksins. Nú er okkur boðið upp á að leita sé að einhverri skítareddingu. Sem verður hvorki fugl né fiskur. Verði hún þá nokkur.
Lyf fást ekki og enginn hefur lausn. Boðað er að þetta sé bara byrjunin. Von er að óskað sé eftir að Lyfjaverslun ríkisins verði endurræst. Meira að segja vantar veiku fólki lífsnauðsynleg lyf.
Hér hefur aðeins verið vikið að nokkrum fréttum frá því í gærkvöld.
Þó veikt fólk fái ekki lyf og sé jafnvel geymt á göngum spítala, dögum saman er þess gætt að sumir fái sitt.
Nýja dómsmálaráðherrann þyrstir enn í hvítvín með humrinum. Til að redda því er í bígerð netverslun með áfengi og þá væntanlega með heimsendingum. Ekki má ráðherrann skorta hvítvínið.