Þar sem allir fundir verða krísufundir
Borgarfulltrúar „steiktir í hausnum“ af löngum fundarsetum. Ólesnir og óundirbúnir borgarfulltrúar tefja fundina.
Enn berast merkar fréttir úr ráðhúsinu. Þar standa fundir svo lengi að mætasta fólk, það er fundarmennirnir; „…allir orðnir steiktir í hausnum,“ eins og einn borgarfulltrúi játaði í Moggaviðtali; „…þetta er því mjög erfitt.“
Sem von er. Engum fer vel að vera steiktur í hausnum þegar verið er að stjórna höfuðborg Íslands.
„Það að fjölga borgarfulltrúum hefur ekki létt á kerfinu, ég held að það sé alveg öruggt. En síðan er hitt að sömu málin eru lengi að fara í gegnum kerfið, sem er að mínu mati mjög óskilvirkt,“ sagði Eyþór, oddviti sjálstæðismanna, við Moggann sinn.
Vigdís Hauksdóttir hefur skoðun á ástandinu: „Það er ekkert vit í því að byrja borgarstjórnarfundi klukkan 14 og leyfa þeim að standa langt fram á nótt. Slíkt fyrirkomulag er hvorki fjölskyldu- né fjölmiðlavænt og heftir upplýsingaflæði út af fundinum,“ sagði hún við Moggann.
Vigdís bætti við að núverandi fyrirkomulag sé einnig líklegt til þess að auka á pirring þeirra sem fundina sækja. „Það breytast allir fundir í eins konar krísufundi.“
Þetta eru hreint út sagt magnaðar lýsingar. Borgarfulltrúar steiktir í hausnum og allir fundir verða krísufundir.
Þarf þetta að vera svona?
„En þetta er auðvitað allt undir okkur komið, sem sitjum á fundunum, og þar eru menn ólíkir. Sumir vilja dvelja við einhver mál á meðan aðrir vilja það ekki,“ sagði Líf Magneudóttir við Moggann og bætti við nokkru sem skiptir kannski mestu máli og sagði að borgarfulltrúar geti mætt mun betur undirbúnir og lesnir til fundar.
„Ég held það sé óþarfi að fjölga fundum í kerfinu. Borgarfulltrúar þurfa að átta sig á því að minna er meira. Það ætti frekar að taka yfirgripsmikil mál og fara betur yfir þau í umræðum í stað þess að skauta yfir fjölmörg minni mál,“ sagði hún.
Byggt á annars ágætri frétt í Mogganum.