Gunnar Smári skrifar: Kristjana Valgeirsdóttir, fjármálastjóri Eflingar, hefur kosið að gera greiðslur til Öldu Lóu Leifsdóttir, eiginkonu minnar, að fréttaefni vegna deilna sinna við yfirmenn sína á skrifstofu félagsins. Í fréttum hafa ýmsar upphæðir verið nefndar, svo Kristjana, sem ein getur verið heimildarmaðurinn, virðist ekki muna lygi sína frá einu samtali að því næsta. En þar sem þessar greiðslur hafa verið gerðar opinberar er sjálfsagt að greina frá þeim.
Efling borgar kr. 40.000 fyrir hvert viðtal, mynd, birtingu og dreifingu á Netinu. Samtals hefur félagið greitt fyrir 63 viðtöl af þeim 100 sem samið var um.
Inn í þessari upphæð eru kostnaðargreiðslur sem eru samkvæmt kjarasamningi Blaðamannafélags Ísland á því þriggja mánaða tímabili sem fór í þessi 63 viðtöl kr. 69.000 vegna síma, fjarskipta og annars, kr. 83.333 vegna ljósmyndavéla, linsa, ljósa o.fl (m.v. vélbúnað fyrir 1 m.kr.) og 173.250 í akstur (25 km. að meðaltali á hvert viðtal og myndatöku, svæði Eflingar spannar til Þorlákshafnar og Hveragerðis og nær yfir stærstan hluta höfuðborgarsvæðisins). Samtals er þetta kr. 325.583 í útlagðan kostnað eða kr. 5.168 á viðtal/mynd.
Greiðslan til Öldu Lóu er verktakagreiðsla. Þær kr. 2.194.417 sem eftir standa skiptast því milli launatengda gjalda upp á kr. 556.792 (kr. 8.838 á viðtal/mynd) og launa upp á kr. 1.637.624 (kr. 26.994 á viðtal/mynd). Þessi laun yfir þriggja mánaða tímabil jafngilda kr. 545.875 á mánuði.
Alda Lóa er með MA-próf og meira en 13 ára reynslu í blaðamennsku og grunnlaun hennar samkvæmt taxta Blaðamannafélags Íslands er því kr. 473.460. Ofan á þessi grunnlaun koma því kr. 72.415 sem jafngilda tæpum 15 yfirvinnustundum á mánuði, samkvæmt taxta BÍ, eða 3,4 yfirvinnustundum á viku.
Heildarvinnufjöldi að baki þessum 63 myndum er því um 524 stundir eða um 8 tímar og 19 mínútur á hvert viðtal, myndatöku, útskrift, í mörgum tilfellum þýðingu, myndvinnslu, yfirlestur og birtingu fyrir utan tímann sem fer í að finna fólkið, ræða við það áður en það fellst á þátttöku, ferðir til og frá vinnustöðum, lestur á viðtalinu fyrir fólkið til samþykkis og þar fram eftir götunum. Og kaffi og matartímar, þar sem miðað er við kjarasamning Blaðamannafélagsins, þeir eru innifaldir í vinnutímanum.
Það vita allir sem hafa minnstu innsýn inn í störf blaðamanna og ljósmyndara að þetta er ekki rúmt reiknaður tími, þvert á móti. Alda Lóa er því ekki að mjólka Eflingu heldur vinnur hún á strípuðum taxta síns stéttarfélags.
Þessi fjármálastjóri Eflingar sem kaus að sverta starf Öldu Lóu í von um að koma höggi á yfirmenn sína, er augljóslega ómerkileg manneskja og illgjörn. Og örugglega rándýr á fóðrum innan félagsins. Ég vona að grasrótinni í Eflingu auðnist að losa félagið undan henni og öðrum henni líkum. Svona fólk ber höfuðsök á vondri stöðu verkalýðshreyfingarinnar, dræmri þátttöku almennra félagsmanna og þar með veiku afli hreyfingarinnar, og hefur því valdið verkafólki fjárhagslegu tjóni upp á hundruð milljarða á umliðnum árum með veikum samningum og allskyns undanlátssemi gagnvart fyrirtækjum. Til að bíta höfuðið af skömminni kom það fram í vor að Kristjana hafði flutt fé félagsmanna Eflingar til ávöxtunar hjá Gamma, sem er allt í senn starfsmannaleiga, okurlánafyrirtæki okurleigufyrirtæki. Í dag hef ég lært að frá því á síðustu öld hefur hún þröngvað þeim félögum sem henni hefur verið treyst fyrir að kaupa vöru og þjónustu af veitingafyrirtæki sambýlismanns síns. Mér er skapi næst að ganga í Eflingu og krefjast þess að félagið rannsaki störf Kristjönu Valgeirsdóttir undanfarna áratugi. Þar er örugglega margt brokað.