- Advertisement -

„Þannig að ég segi bara: Sveiattan“

Inga Sæland er óhress vegna hvernig komið er fyrir Hugarafli. Hún sagði:„Er það svo, virðulegi forseti, að ef eitthvað reynist vel þá þarf samt að búa til eitthvað nýtt?“

„Á þessari stundu stendur hópur fólks fyrir utan velferðarráðuneytið í þöglum mótmælum vegna þess að það á að leggja niður Hugarafl,“ sagði Inga Sædal, formaður Flokks fólksins, á Alþingi fyrir skömmu.

„Hugarafl eru samtök til að hjálpa fólki sem hefur átt við geðrænan vanda að stríða. Ég hef ekki betur getað séð í gegnum tíðina en að geðvandi á Íslandi hafi verið fótum troðinn og lítilsvirtur af þeim ráðamönnum sem hefðu hvað helst átt að taka utan um málið og hjálpa fólki sem þarf á hjálpinni að halda,“ sagði hún.

„Er það svo, virðulegi forseti, að ef eitthvað reynist vel þá þarf samt að búa til eitthvað nýtt? Það þarf að leggja það niður og gera það einhvern veginn öðruvísi. Er það til þess að skapa óöryggi þeirra sem hafa þurft á þjónustunni að halda? Ég get ekki skilið tilganginn með því að taka það sem vel er gert og koma því þannig fyrir að menn vita ekkert hvað í rauninni kemur út úr því í lokin,“ sagði hún.

Í lok ræðu sinnar sagði Inga: „Þannig að ég segi bara: Sveiattan að vera að leggja niður það sem fólkið þarf á að halda. Við eigum frekar að efla það og styrkja. Geðheilbrigðismálin ættu sannarlega að vera langtum framar í forgangsröðuninni en raun ber vitni á þessu háa Alþingi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: