Ráðherra hófst handa við að fá húskarla sína í lið með sér til að fá þóknanlegra svar út úr Persónuvernd.
„Það er að verða ár síðan ég lagði fram fyrirspurn til þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra um sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs síðastliðin tíu ár. Það barst hlutasvar í maí, þrem mánuðum seinna, þar sem sagði að 3.600 íbúðir hefðu verið seldar á 57 milljarða kr., en þess jafnframt getið að ekki væri hægt að birta nafnalista þeirra sem keypt hefðu vegna persónuverndarsjónarmiða,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki.
„Sá sem hér stendur hafði samband við Persónuvernd sem setti sig ekki upp á móti því að þessi listi yrði birtur. Ráðherra hófst handa við að fá húskarla sína í lið með sér til að fá þóknanlegra svar út úr Persónuvernd. Hann svaraði loks í ágúst/september og sendi svar hingað og seldi Alþingi sjálfdæmi um það hvort birta ætti viðkomandi upplýsingar eða ekki. Nú er það þannig að Alþingi er ekki ritskoðunar- eða ritstjórnarskrifstofur fyrir ráðherra, þannig að Alþingi sendi að sjálfsögðu þetta erindi til baka og krafist alvörusvars,“ sagði Þorsteinn.
Það er verk Ásmundar Einars Daðasonar að svara Þorsteini.
„Er eðlilegt að leynd ríki um sölu ríkiseigna? Nei, það er ekki eðlilegt að leynd ríki um sölu slíkra eigna. Þess vegna hefur ráðherra beint þeim tilmælum til Íbúðalánasjóðs að þær upplýsingar séu almennt gerðar opinberar og að Íbúðalánasjóður leiti álits Persónuverndar. Það kemur líka fram í svarinu sem dreift var í gær að Íbúðalánasjóður verði þá að leita álits Persónuverndar á því hvort heimilt sé að birta upplýsingarnar. Mér er kunnugt um að Íbúðalánasjóður sé búinn að óska eftir þeirri heimild frá Persónuvernd.“