Alþingi
„Framtíð þessara mæðgna er óviss. Það er byrjað að segja upp leigusamningum í hverfinu sem telur eingöngu leiguíbúðir. Sé þeim gert að flytja þá bíður gatan. Þær geta engan veginn greitt það leiguverð sem nú tíðkast og framfleytt sér um leið. Þetta er því miður ekki einsdæmi. Í einu ríkasta ríki heims lifir enn þá stór og stækkandi hópur undir fátæktarmörkum. Þessi kona sem ég hef nú sagt frá hefði með glöðu geði þegið þessar 30 milljónir sem ríkisstjórnin sóaði vegna galla á útgáfu bókarinnar Fjallkonan,“ sagði Elín Íris Fanndal á Alþingi fyrr í dag.
Hverjar eru mæðgurnar og hver er saga þeirra?
„Kona á sjötugsaldri var þegar úrskurðuð öryrki árið 2016, árið sem ég gekk full vonar fyrir hennar hönd og annarra til liðs við Flokk fólksins. Hún lapti dauðann úr skel eins og öryrkjar almennt á þeim tíma. Með henni uppi á Ásbrú býr dóttir hennar, sem vinnur fulla vinnu, ásamt barnabarni. Þessar mæðgur ná enn í dag varla að framfleyta sér með sameiginlegum tekjum, hvað þá að veita sér einhvern munað. Barnabarn þessarar konu, líf hennar og yndi, unir hag sínum vel í stórum leikskóla. Þar er til jafns töluð íslenska og enska. Barnið, fjögurra ára gamalt og fætt á Íslandi, bjargar sér orðið betur á ensku en íslensku. Það er auðveldara að læra ensku. Það má vel spyrja sig: Verðskuldar þúsunda ára gamalt móðurmál okkar ekki meiri virðingu en svo að fjögurra ára gamalt barn fætt á Íslandi bjargi sér betur á ensku en íslensku? Hvað líður loforði hæstvirts ráðherra um að texta og talsetja erlent barnaefni?“
Elín Íris:
„Ástæða þess að ég gekk til liðs við Flokk fólksins stofnunarárið 2016 er sú að flokkurinn er sá eini sem setur í forgang þau sem minna mega sín. Ég fylltist eldmóði yfir því að loksins væri kominn fram á sjónarsviðið flokkur sem berst fyrir bættum lífskjörum fátæks fólks. Göfug hugsjón Flokks fólksins hreyfði hressilega við mér á sínum tíma.“