Gamla íhaldið sækir ekki stuðning til yngra flokksfólks. Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi sá sig knúna til að láta í sér heyra. Tilefnið eru Staksteinar gærdagsins. Þar bar ritstjórinn fyrir sig Ívar Pálsson.
„Í orðagjálfrinu er grátið beiskum tárum yfir áformum um bættar almenningssamgöngur. Ívar átelur þær ungu Sjálfstæðiskonur sem stutt hafa Borgarlínu – þær séu jaðarsettur hópur, haldinn tregðu til að aðlagast nýjum tímum – og telur rétt að víkja þeim öllum til hliðar,“ skrifar Hildur og er ekki hætt:
„Það er gráglettið þegar menn átelja sér yngra og framsýnna kvenfólk fyrir tregðu og afturhald. En mikill er máttur þeirra ungu Sjálfstæðiskvenna sem leitt hafa umræðu um Borgarlínu, því 43 kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa nú greitt Borgarlínu atkvæði sitt en aðeins 7 fulltrúar hafa greitt atkvæði gegn verkefninu.
Við samgönguvandanum þarf fjölþættar lausnir. Borgarlína verður ekki eina lausnin – en hún verður hluti af lausn. Verkefnið er stutt af stórum meirihluta borgarbúa og yngri kynslóðir fagna valkostinum – því til framtíðar þurfum við alltaf – meira frelsi og meira val.
Ég tilheyri stolt þeim afgerandi meirihluta kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokks sem stutt hafa framtíðarsýn um bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ungar konur, eldri menn – og allt þar á milli.“
Kolbrún Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, þakkar Hildi skrifin og segir:
„Morgunblaðið vill ekki Borgarlínu, það er ljóst. Nú er það víst jaðarsettur hópur ungra sjálfstæðiskvenna sem styður þau áform.
Við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar erum ekki sérlega ung og bara tvær konur þar um borð. Allir flokkar nema einn (getiði nú) styðja Borgarlínuna. Samgöngumál skipta okkur Mosfellinga miklu máli. Borgarlínan er lausn við umferðarteppum, svar við kröfu um umhverfisvernd og krafa nútímafólks um fjölbreytta samgöngumáta.“