„Það vantar hins vegar landbúnaðarráðherra sem hefur áhuga á og stendur með greininni, ráðherra sem hlustar á bændur og berst stoltur fyrir bættum starfsskilyrðum landbúnaðarins. Ungt fólk trúir á greinina af hverju ekki ráðherra,“ skrifar Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður og varaformaður Miðflokksins, í Mogga dagsins.
Hann gagnrýnir þar Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra harkalega.
Gunnar Bragi bendir á bjartar hliðar landbúnaðar og skrifar:
„Fólk trúir á íslenskan landbúnað. Ungt fólk er þar oftar en ekki í fararbroddi með einhverja reynslu að baki t.d. úr viðskiptalífinu eða nýútskrifuð úr háskóla og eiga a.m.k. eitt sameiginlegt, brennandi áhuga og trú á vörunni sinni sem tengist íslenskum landbúnaði og matvælum með einum eða öðrum hætti. Verslunin sér þetta líka og setur upp myndarlega standa þar sem ýtt er undir sýnileik þeirra gagnvart neytendum sem taka vel í nýjungarnar.“