- Advertisement -

Það sem vantar í „þjóðarútvarpið“

Gunnar Smári skrifar:

Banvæn skekkja Ríkisútvarpsins.

Hvað finnst ykkur um umfjöllun Ríkisútvarps og -sjónvarps um stöðu ólíkra hópa á tímum kórónafaraldurs og við upphaf kreppu; svo sem innflutt vinnuafl í starfi hjá starfsmannaleigum, verkafólk á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi stefnir í 20-30%, leigjendur sem þolað hafa tekjumissi en sitja föst í okurleigu, aldraða og öryrkja sem búa einangraðir á heimilum sínum og þurfa að fá sendan mat og vistir, íbúa byggðarlaga úti á landi sem horfa fram á langa eyðimerkurgöngu í ferðaþjónustu, heimilislaust fólk sem býr hjá ættingjum og vinum, háskólanemendur á námslánum sem misst hafa þráðinn í náminu vegna röskunar farsóttarinnar og horfir nú fram á að ná ekki prófum svo að námslánin breytist í skammtímalán, stöðu þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem flúðu dýrtíðina á Íslandi til að geta lifað af tekjum sínum en hefur nú hrakist hingað heim í enn verri dýrtíð og svartar horfur (hvar býr þetta fólk, sem utanríkisráðuneytið kallaði heim) o.s.frv.?

Þessi upptalning á ekki að vera tæmandi, ég er aðeins að nefna eitthvað af því sem sárlega vanta í umfjöllun ríkisfjölmiðilsins, sem vill láta kalla sig þjóðarútvarp á hátíðarstundum en þjónar ætíð valdinu, hefur aldrei verið góður í að horfa á heiminn frá sjónarhóli almennings, allra síst hinn lakar settu, hinna kúguðu; finnst almenningur eiga heima í afmörkuðum dagskrárliðum þar sem fjallað er um tómstundir hans eða þá aftast í fréttatíma þar sem vegfarendur fá orðið á göngum Kringlunnar (aldrei vitni, aldrei gerandi eða þolandi, aðeins sem slysaúrtak eins og almenningur sé einn kór en ekki margir einsöngvarar) svo áhorfendum sé augljóst að alþýðan sé aukapersóna í frásögn Ríkisútvarpsins af því hvernig yfirvöld gæta okkar, hugga og styrkja.

Mér sýnist þessi skekkja Ríkisútvarpsins, þessi elítismi og valdaþjónkun, sem alltaf hefur verið hvimleið sé orðin banvæn í því ástandi sem nú ríkir; annað hvort lifir samfélagið þetta ekki af (verður nánast fasískt, keyrt áfram með ímyndaða hagsmuni ímyndaðs „við“ og valti yfir þarfir og óskir hinna lakar settu), eða Ríkisútvarpið veslast upp sem eitthvert undur, einhver heimska sem misst hefur af lýðræðisvæðingu fjölmiðla seinni hluta tuttugustu aldar, sem snerist um draga fleiri fram í dagsljósið og gefa rödd, sýna samfélagið eins og það er en ekki eins og yfirvöld vilja halda því fram að það sé.

Þegar ég horfi á fréttaumfjöllun Ríkissjónvarpsins eða umræðuna sem þar er boðið upp á, finnst mér eins og ég sé að horfa inn í fjölmiðlaumhverfið eins og það var áður en ég byrjaði í blaðamennsku, það umhverfi sem kynslóðin á undan mér barðist við að brjóta niður.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: