- Advertisement -

Þetta verður líka rannsakað

Hagfræðingarnir Ólafur Arnarson og Ólafur Ísleifsson voru að venju gestir þáttarins Bítið á Bylgjunni í morgun. Tilvonandi skýrsla Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar kom til tals.

Ólafur Ísleifsson sagði margt eiga að rannsaka sem tilefni er til að gera. En hann nefndi nokkur atriði sem ekki á að rannsaka, en eru að hans mati full ástæða til að gera.

Hvað bauð Marvyn?

„Eitt af því sem helst kom út úr rannsóknarskýrslu Alþingis var það að Marvyn King, sem var bankastjóri Englandsbanka, hafi í tölvubréfi 23. eða 24. apríl 2008 synjað Seðlabankanum um lánafyrirgreiðslu en um leið boðið aðstoð. Hann er í þessum litla klúbbi seðlabankastjóra sem hittist í Basel kannski tíu sinnum á ári. Mér finnst fullkomkin ástæða til að grafast fyrir um hvað það var sem hann bauð. Ég vænti þess að þetta tilboð hafi ekki verið sett fram nema að athuguðu máli og að höfðu samráði  þessa bankastjóra við einhvern af sínum kollegum og þá verður kannski fyrst fyrir sænski seðlabankastjórinn sem lét málefni Íslands og Íslendinga mjög til sín taka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Norðurlöndin tóku undir málstað handrukkunarinnar

Það eru önnur mál sem er ástæða til að fjalla um. Hvernig var þetta með þennan fjárstuðning, eða lán, að hálfu Norðurlandanna inn í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðins. Lánin voru bundin skilyrðum sem voru íþyngjandi fyrir okkur Íslendinga varðandi Icesavemálið. Hvernig gerist það að norræna vina- og bræðralags- og frændþjóðir skuli með þessum hætti hafa tekið upp og tekið undir málstað handrukkunarinnar gegn okkur Íslendingum. Mig fýsir mjög að átta mig á hvað undirstraumar voru þarna og með hvaða hætti þessi skilyrði rötuðu þarna inn.

Hvað gerðu Íslendingar í Nató?

Í þriðja lagi gerðist það að ein þjóð, Bretar, setur okkur Íslendinga á lista yfir hryðjuverkaaðila við Alkaída og talibönum. Hvaða umræður fóru fram innan Atlantshafsbandalagsins þar sem þessar tvær þjóðir starfa saman og hafa starfað saman áratugum saman í varnarbandalagi, þar sem árás á eina þjóð jafngildir árás á þær allar. Og með hvaða hætti beittu íslensk stjórnvöld sér á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í þessu máli.

Hvað gerði Íslendingurinn í AGS?

Í fjórða lagi er þetta, það voru augljósir tilburðir Breta og Hollendinga til þess að beita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem er alþjóðastofnun sem starfar á grundvelli laga og stofnskrár sem felur í sér jafnræði á milli aðildarþjóðanna. Hvaða umræður áttu sér stað innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í framhaldi af því að Bretar og Hollendingar gerðu hvað þeir gátu til að tefja og trufla áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Haldið þið að Indverjinn, Brasilíumaðurinn, Kínverjinn, Afríkufulltrúarnir í stjórninni hafi látið bjóða sér þetta. Það hvarflar ekki að mér og með hvaða hætti beitti fulltrúi Íslendinga í stjórninni sér meðan þetta gekk yfir.

Hérna eru fjölmörg viðfangsefni sem falla undir skilgreiningu þessa nýja verkefnis, sem er að athuga hrunið einsog það sést erlendis frá, eða hinn erlenda þátt og ég óska þeim mönnum sem hafa tekist þetta verkefni á hendur góðs gengis.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: