- Advertisement -

„Það heitir á mannamáli SPILLING!“

Marinó G. Njálsson:

Inngrip ráðherra í fjárveitingar til lögreglu og saksóknara ganga því gegn ákvæði 70. gr. Þetta er þó eitt af mörgum stjórnarskrárbrotum, sem ekki er amast við. Enda virðist stjórnarskráin bara vera til formsins vegna, en ekki svo farið sé eftir henni.

Stjórnmál Þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr áhugaverðrar spurningar:

„Má lögregla rannsaka mál að eilífu?“

Almenn ástæða fyrir drætti á rannsókn mála er mannekla lögreglu og héraðssaksóknara, sem verður til þess að forgangsraða verður verkefnum. Því er önnur spurning einnig viðeigandi í þessu samhengi:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ísland virkar hins vegar ekki þannig.

„Mega ráðherrar hafa áhrif á rannsóknir mála með því að veita of litlu fjármunum á fjárlögum til þeirra aðila sem sinna rannsóknum?“

Dæmi eru um, að fjárveitingar til sérstaks saksóknara, síðar héraðssaksóknara, voru skornar niður í miðri umfangsmikilli rannsókn, að því virtist vegna þess að fjármálaráðherra fannst vera nóg komið af rannsóknum. Undanfarin á hafa fjárveitingar til hvort heldur lögreglu eða héraðssaksóknara verið það naumar, að hvorir um sig hafa þurft að velja hvaða málum er sinnt og hvaða málum ekki.

Svo fyrri spurningunni sé svarað, þá er ekki gott að rannsókn mála dragist og öll smærri mál væri æskilegt að ljúka innan nokkurra vikna eða jafnvel sólarhringa, þannig að hægt sé að dæma í þeim eins fljótt og mögulegt er. Þannig er þetta í mörgum löndum í kringum okkur. Sakborningur handtekinn fyrir brot sitt framið sama dag og hann dæmdur í síðasta lagi daginn eftir. En þá verður að veita fjármuni til þeirra aðila sem sinna ferlinu allt frá handtöku að dómsuppkvaðningu, þannig að þetta sé hægt.

Ísland virkar hins vegar ekki þannig. Helst er talin vera nauðsyn á biðlistum sem lengjast og lengjast. Þetta á ekki bara við um dómskerfið, heldur heilbrigðiskerfið, menntakerfið, félagslega kerfið, húsnæðiskerfið. Alls staðar er endalaus bið eftir að fá úrlausn sinna mála.

Mín skoðun er, að það séu óeðlileg pólitísk inngrip í rannsókn mála, að draga úr fjárveitingum til lögreglu og héraðssaksóknar, þegar vitað er að hjá þeim liggi þykkir bunkar af málum (og mörgum mjög umfangsmiklum). Að lögregla sé ekki betur mönnuð, að hún verði að forgangsraða mikilvægum rannsóknum, er til skammar fyrir ríkisstjórn og ráðherra. Að héraðssaksóknari verði að láta alvarleg efnahagsbrot sitja órannsökuð ofan í skúffu, vegna mannfæðar og fjárskorts, er til skammar fyrir ríkisstjórn og ráðherra. Að héraðssaksóknari verði að hafna að taka fyrir eða fella niður rannsóknir á alvarlegum brotum, vegna mannfæðar og fjárskorts, er til skammar fyrir ríkisstjórn og ráðherra.

Því miður virðist vera rauður þráður í þessu…

Það er alveg hægt að taka þetta lengra og fjalla um allar þær eftirlitsstofnanir sem geta ekki sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu, vegna mannfæðar og fjárskorts.

Því miður virðist vera rauður þráður í þessu og hann er, að stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórnir og ráðherrar, koma (að því virðist) viljandi í veg fyrir framgang mála sem eru óþægileg tilteknum aðilum í þjóðfélaginu, með því að skera niður fjárframlög til þeirra aðila sem eiga að sinna eftirliti og rannsóknum. Viðkomandi aðilar hafa bligðunarlaust kvartað í ráðherrum yfir þeirri ósvífni að sæta rannsókn vegna þess, sem í augum flestra, eru skýr brot. Og það næsta sem gerist er að framlög til eftirlitsaðila og rannsakenda eru skorin niður. Það heitir á mannamáli SPILLING!

Höfum í huga, að stjórnarskráin, 70. gr., kveður á um rétt manna til réttlátrar „málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli“. Fyrri hluti þessa texta, kveður jafnframt á um að rannsókn máls og útgáfa ákæru þurfi að ljúka innan hæfislegs tíma þar sem þetta tvennt er hluti málsmeðferðar. Inngrip ráðherra í fjárveitingar til lögreglu og saksóknara ganga því gegn ákvæði 70. gr. Þetta er þó eitt af mörgum stjórnarskrárbrotum, sem ekki er amast við. Enda virðist stjórnarskráin bara vera til formsins vegna, en ekki svo farið sé eftir henni.

Aftur að upphafinu: „Má lögregla rannsaka mál að eilífu?“

Æskilegt er, að rannsókn mála ljúki eins fljótt og hægt er og innan hæfilegs tíma, en þá verða ríkisstjórn og ráðherrar að sjá til að nægar fjárveitingar séu veittar til þeirra, enda gerir 70. gr. stjórnarskrárinnar hreinlega kröfu um það.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: