„Hvers vegna er ríkisstjórnin ekki í stríði þegar verið er selja sjúkraupplýsingar í dómsmálum? Einnig eru upplýsingar um fjárhagsstöðu einstaklinga seldar sem hver önnur gróðavara.“
Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.
„Ríkisstjórnin er ekki í stríði við að útrýma spilakössum. Spilakassar eru 900 á landinu öllu og þar af 81 á einum stað í Reykjavík. Er það ekki spilavíti? 52 á einum stað í Kópavogi og við hliðina 32 aðrir. 84 í Hamraborg í Kópavogi. Er það félagslegt úrræði eða er verið að reka spilavíti? Það merkilegasta við þetta allt saman er að í Hafnarfirði eru um 100 kassar, fáir á Seltjarnarnesi, fáir í Mosfellsbæ en, undur og stórmerki, ekki einn í Garðabæ árið 2019, ekki einn. Hvers vegna? Hvers vegna er enginn spilakassi í Garðabæ? Er það ekki það sem við eigum að spyrja okkur að? Eigum við ekki að sjá til þess að við tökum upp það sem Garðabær er að gera, að útrýma spilakössum? Við eigum að fara í smiðju Garðbæinga og sjá til þess að það séu hvergi spilakassar. Það er ekkert annað en spilavíti þegar það eru komnir um 100 kassar á sama stað.“