„Það er hlaupinn í mig einhver galsi“
„Það er hlaupinn í mig einhver galsi þó að þetta sé ekkert sérlega fyndið. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu Flokks fólksins við frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga, um sóttvarnahús og för yfir landamæri. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum hvernig Flokkur fólksins hefði viljað standa að sóttvörnum á okkar blessaða landi,“ sagði Inga Sæland á næturfundi Alþingis um sóttvarnarlög.
„Það er alveg rétt, sem háttvirtur þingmaður Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, sagði hér í ræðu á undan mér, að ýmislegt kom fram, þar á meðal það sem var svolítið sláandi, þ.e. hve ástandið er í raun eldfimt úti um allt og að sóttvarnalæknir var ekki einu sinni hafður með í ráðum þegar frumvarpið, sem hæstv. heilbrigðisráðherra leggur hér fram, var smíðað. Miðað við að heyra í sóttvarnalækni, landlækni og þeim sem komu fyrir nefndina í dag eru þessi vinnubrögð eiginlega alveg með ólíkindum. Ég hafði bundið vonir við að við hefðum t.d. getað sammælst um margt. Ég nefni sem dæmi þau tímamörk sem við fylgjum í breytingartillögunni. Landlæknir telur líka að það skipti afskaplega miklu máli að koma því inn í lögin skýrt og skorinort, þannig að það sé alveg ótvírætt, að sóttvarnalæknir hafi þær heimildir sem hann telur nauðsynlegar til að uppfylla markmiðin sem fylgja starfi hans, sem eru í raun að koma í veg fyrir að faraldur spretti hér upp ef svo ber undir.