
„Hér þarf formaður Stjórnskipunar og eftirlitsnefndar að fara varlega. Og nefndin öll. Við sjáum öll í hendi okkar að það er ekki stjórnmálamanna að rannsaka fréttir eða fréttaöflun fjölmiðla. Það gerist helst í ríkjum sem við berum okkur ekki saman við. Lögregla hefur nú þegar rannsakað málið og sá ekki ástæðu til að gefa út ákærur. Það er ekki stjórnmálamanna að véfengja niðurstöðu lögreglu og hefja sjálfstæða rannsókn á fréttamönnum eða fela öðrum að gera slíkt,“ skrifar Sigmar Guðmundsson alþingismaður í Viðreisn.
„Fréttamenn njóta verndar samkvæmt lögum og þeim er ekki heimilt að ljóstra upp um heimildarmenn sína og geta eðlilega ekki opinberað hvort og hvernig gögn voru notuð eða hvernig samstarfi við aðra var háttað. Rannsóknarnefnd er ekki skipuð nema að undangenginni skoðun Stjórnskipunar og eftirlitsnefndar. Sú athugun er í höndum stjórnmálamanna og það fer best á því að þeir skipti sér sem minnst af vinnu fréttamanna. Sem í þessu tilviki gerðu ekkert annað en að ljóstra upp mjög alvarlega framgöngu stórfyrirtækis gagnvart fréttafólki. Hér skiptir mestu að lögregla hefur rannsakað málið og fellt það niður,“ skrifar Sigmar.