- Advertisement -

Það er búið að prófa verðtrygginguna í 45 ár og enn er allt í steik – er ekki kominn tími til að prófa eitthvað nýtt?

Marinó G. Njálsson skrifar:

Hvað af þessu sem er valið, þá kemur í ljós, að íslenskir neytendur eru krafðir um háa vexti. Hvort sem eðlilegt er að bæta 3,0%, 3,5% eða yfir 4.0% ofan á verðbætur verðtryggða húsnæðislána skiptir ekki höfuðmáli.

Efnahagur Ritstjórn Viðskiptablaðsins hlítur að gefa sér háa fimmu núna. Hún fann mann, Agnar Tómas Möller, sem fann viðmiðunarpunkta, sem lætur vaxtahækkun Arion banka og Íslandsbanka líta út fyrir að vera lága.

Agnar gagnrýnir Stefán Ólafsson fyrir að handvelja tímabil í samanburð sem hann gerði á raunvöxtum verðtryggðra húsnæðislána, en Stefán miðar við tímabilið 2013-2023. Agnar handvelur því annað tímabil, þ.e 2009-2024. Stefáni til málsbót er að Arion banki birtir upplýsingar um breytilega vexti húsnæðislána fyrst 15.5.2012, Íslandsbanki 28.3.2018 og Landsbankinn 11.11.2011 samkvæmt upplýsingum sem bankarnir birta á vefsíðum sínum. Að Stefán hafi miðað við 2013 er því einfaldlega vegna þess, að frá þeim tíma eru til upplýsingar frá tveimur bönkum um það sem þeir sjálfir kalla breytilega vexti verðtryggðra húsnæðislána.

Sé ætlunin að velja lengra tímabil, þá þurfa bankarnir að ákveða og birta hverjir vextirnir voru. Greinilegt er að svo kallaðir kjörvextir eru ekki jafngildir húsnæðisvöxtum. Hjá Arion banka hefur munurinn á þessum vöxtum verið að jafnaði 1,0% frá því að Arion banki birti fyrst upplýsingar um breytilega vexti verðtryggðra húsnæðislána. Hjá Íslandsbanka er munurinn líka um 1,0%, en 0,68% hjá Landsbankanum. Agnar þarf því að leiðrétta sitt graf sem nemur þessu, vilji hann yfirfæra kjörvexti á húsnæðislán. Af grafi hans virðist hins vegar mega lesa, að vextir bankanna breyttust mikið eftir endanlega dóma um áður gengistryggðu lánin og þá fyrst urðu verðtryggð húsnæðislán sæmilega hagstæð á Íslandi. Val Stefáns var því rétt að byrja viðmið sitt árið 2013.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Losum okkur við verðtryggingu á neytendalánum…

Hins vegar má alveg gagnrýna Stefán að taka vaxtalækkunarárin með, því þau gefa okkur skekkta mynd. (Vaxtalækkunarárin tel ég þann tíma sem vextir Seðlabankans á viðskiptareikningum voru undir 2,75%, þ.e. frá 5.2.2020 til 3.5.2022.) Þá endum við með að verðtryggðir, breytilegir vextir húsnæðislána hjá Landsbanka hafi að jafnaði verið 3,48%, hjá Arion banka 3,58% og 3,22% hjá Íslandsbanka. (Taldir eru dagar sem hvert vaxtastig gilti og þannig fundið nákvæmt meðaltal vaxtanna.)

Hvað af þessu sem er valið, þá kemur í ljós, að íslenskir neytendur eru krafðir um háa vexti. Hvort sem eðlilegt er að bæta 3,0%, 3,5% eða yfir 4.0% ofan á verðbætur verðtryggða húsnæðislána skiptir ekki höfuðmáli. Lægsta talan, 3,0%, er hærri vextir en dönskum húsnæðislántökum hefur almennt boðist undanfarna áratugi og þá á eftir að æra óstöðugan og bæta við verðbólgunni. Svo furða hinir og þessir sig á því, að laun þurfi að hækka ótt og títt. Verðbólga og verðbætur valda því að launabætur hverfa eins og hendi sé veifað.

Við þessu öllu er ekki nema ein leið: Losum okkur við verðtryggingu á neytendalánum og setjum vaxtaþak á húsnæðislán. Þannig verður það kappsmál lánveitenda að viðhalda stöðugleika. Núna græða bankarnir mest á hárri verðbólgu. Sé verðtryggingin aftengd og sett þak á vexti húsnæðislána, þá verður hagnaður bankanna mestur í efnahagslegum stöðugleika og minnstur í efnahagslegum óstöðugleika.

Það er búið að prófa þetta með verðtrygginguna í 45 ár og enn er allt í steik, þökk sé henni. Er ekki kominn tími til að prófa eitthvað nýtt?

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: