Ég þykist vita það kæri formaður að þú stefnir ekki endilega að því að leiða Framsóknarflokkinn í næstu kosningum en ég er líka sannfærður um að þú viljir koma flokknum af líknardeildinni áður en til þeirra verður efnt.
Guðni Ágústsson.

„Þegar fyrirtæki eða félög fara illa eiga allir haghafar og félagsmenn rétt á skýringum um hvað olli fallinu. Og ekki síður hvernig fyrirhugað sé að endurreisa starfsemina. Það þolir enga bið að greina ástæður þessa mikla fylgistaps og teikna öfluga endurkomu upp. Í þeirri vinnu er nauðsynlegt að snúa öllum steinum við og í vinningsliðinu sem sett verður til verka þarf að manna hverja stöðu af kostgæfni. Svo gripið sé til fótboltamáls þarf sóknarlínan að nærast á hungrinu eftir mörkum, miðjan að hafa úthald í endalausa vinnu og vörnin að hafa í farteskinu svo mikla reynslu að engar óvæntar stöður komi henni í opna skjöldu,“ segir í grein sem Guðni Ágústsson skrifaði og birt er í Mogga dagsins.
Guðni heldur áfram og skrifar næst:
„Það er beinlínis skylda þín, Sigurður Ingi, sem formaður Framsóknarflokksins að skipa framtíðarnefnd um endurreisn flokksins í góðu samráði og sátt við varaformann og ritara hans. Þið þrjú eruð réttkjörin að stjórnveli Framsóknarflokksins og fyrir nefndina sem þið setjið á laggirnar er mikilvægt að hafa fullt traust og gott veganesti frá ykkur öllum. Vonandi mun okkar ágæti þingflokkur ekki síður hafa hvetjandi nærveru og gagnlegt innlegg í vinnu nefndarinnar. Allur má hópurinn hafa hugfasta hina gömlu og góðu brýningu: „Ef sverð þitt er stutt gakktu þá feti framar.“
Verkefni þessarar framtíðarnefndar er ekki lítið: Að skilgreina stöðuna af hreinskiptni og kortleggja af nákvæmni hvernig nýta megi lykilatriðin sem undirstöður nýrra sóknarfæra. Tíminn til stefnu er naumur. Nefndin ætti að kynna vinnu sína á haustfundi miðstjórnar síðar á þessu ári og í kjölfarið gæti flokksþing ársins 2026 tekið tillögurnar til umræðu og afgreiðslu. Hér dugar engin tæpitunga. Þessi nefnd þarf kjarkmikinn forystumann sem gæti óttalaus talað fyrir greinargóðu handriti að þróttmikilli þátttöku Framsóknarflokksins í íslenskum stjórnmálum til langrar framtíðar.
Ég þykist vita það kæri formaður að þú stefnir ekki endilega að því að leiða Framsóknarflokkinn í næstu kosningum en ég er líka sannfærður um að þú viljir koma flokknum af líknardeildinni áður en til þeirra verður efnt. Og kannski er tíminn til stefnu naumari en sem nemur þeim árum sem eftir eru af fyrirhuguðum líftíma núverandi valkyrjustjórnar.
Þess vegna er okkur ekki til setunnar boðið. Seinna gæti orðið of seint. Það er að minnsta kosti lágmark að tólf þúsund félagar í Framsóknarflokknum viti hvort flokkurinn þeirra sé að koma eða fara. Þess vegna skora ég á þríeykið í æðstu forystu Framsóknarflokksins að bretta upp ermar, horfast í augu við okkar ískalda veruleika, taka til máls og grípa til aðgerða,“ skrifaði Guðni Ágústsson.