Gunnar Smári skrifar:
Í örskotsstund hélt ég að ríkisstjórnin ætlaði að gera stórátak í að búa til störf … en nei, það er ekkert slíkt á leiðinni. Aðeins sama tuggan um að nudda eigendur einkafyrirtækja sem nýfrjáls-ofsatrúarfólk heldur að eitt geti búið til störf eða verðmæti. Málið er að einkafyrirtækin eru ekki að gera neitt og munu líklega ekkert gera fyrr en hagkerfið tekur við sér. Að ætla að bíða eftir þeim er það alvitlausasta sem nokkur ríkisstjórn getur gert.
Hlustið á efnahagsráðherrann þegar hann útlistar planið sitt, þið munið átta ykkur á hvað þetta er aumt. Það er kominn tími til að óttast framtíðina. Þetta er uppskrift að langvarandi atvinnuleysi. Við erum á leið inn í myrkur, ekki í átt að ljósinu.
Þetta segir Bjarni: „Að standa með fyrirtækjum sem tímabundið standa í ströggli en eiga sér framtíðarvon, að gera eins og við höfum gert; setja peninga í fjárfestingu og inn í samkeppnissjóðina. Hvetja fyrirtæki til að stunda rannsóknir og nýsköpun á Íslandi. Standa með frumkvöðlum. Þetta skiptir allt máli því þarna er verið að sá fræjum til framtíðar sem munu skjóta rótum og vera grundvöllur að framtíðarverðmætasköpun.“