- Advertisement -

„Þá þarf sú orka að vera til staðar“

„Þörfin fyrir olíu er nefnilega ekki að minnka eins mikið og við myndum vilja“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

„Mér hefur fundist fólk einhvern veginn ekki alveg segja það sem það meinar eða meina það sem það segir þegar það talar annars vegar um að vera púristi í náttúruvernd og vilja ekki raska náttúrunni en vilja síðan loftslagsmarkmiðin og grænu orkuna. En það felur einfaldlega í sér rask á náttúru að gera það. Þetta þurfum við að segja hreint og klárt en ekki bara tala og vera síðan ekki tilbúin að gera það sem þarf til að framleiða þá orku sem á að koma í staðinn,“ sagði Þórdís K.R. Gylfadóttir á Alþingi snemma sumars.

„Þegar ég ræði um orkuskipti þá nýti ég hvert tækifæri, sem mér finnst stundum skorta á í þessum þingsal, til að ræða samhengið á milli þess að ef við ætlum öll að hætta að nota jarðefnaeldsneyti — hætta að vera háð því og nota annað í staðinn og nota það sem við búum til úr náttúrunni með endurnýjanlegum hætti og grænni hætti — þá þarf sú orka að vera til staðar.“

„Á meðan við erum enn háð jarðefnaeldsneyti, og ekki bara við hér á Íslandi, og erum með stefnu um að hætta því, þurfum við að búa orkuna til einhvern veginn öðruvísi. Til þess þarf að raska náttúrunni vegna þess að öðruvísi er erfitt að búa til raforku með grænum endurnýjanlegum hætti. Og meðan við þurfum enn að reiða okkur á olíu, og löndin í kringum okkur, er varla gagnlegt að hvetja okkar helstu vinaþjóðir til að ákveða að hætta því og láta þannig alla framleiðslu sem enn er þörf fyrir í hendur ríkja sem oft og tíðum er síður hægt að treysta. Þörfin fyrir olíu er nefnilega ekki að minnka eins mikið og við myndum vilja,“ sagði Þórdís utanríkisráðherra.

„Við kaupum okkar olíu, sem við erum enn háð, til að mynda frá Noregi. Ég myndi ekki vilja að íslensk stjórnvöld gætu ekki lengur — ekki það að það sé neitt inni í myndinni að það sé að fara að gerast – keypt af Noregi og þyrftu að leita eitthvert annað og lengra. Í tvíhliða samstarfi við ríki leggur Ísland áherslu á að ræða sameiginleg hagsmunamál og koma á framfæri helstu áherslum stjórnvalda í loftslagsmálum sem tengjast Parísarsamningnum og í tilfellum þar sem á vettvangi Parísarsamningsins koma upp ályktanir um sameiginlega eða fjölþjóðleg afstöðu til einstakra ályktana eru þær síðan skoðaðar hverju sinni.“



Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: