Fréttir

„Þá ríkir ekkert traust“

By Ritstjórn

April 06, 2022

„Það er ekki einfalt verk að selja banka. Hvað þá þegar bankinn er í eigu þjóðar sem er skaðbrennd eftir heilt bankahrun og afskaplega misheppnaðar bankasölur í kringum aldamót. Við þær kringumstæður er traust algert lykilorð. Traust á undirbúningnum, traust á sölunni, traust á kaupendum og traust á því að heiðarlega sé staðið að málum og vandað til verka í hvívetna. Traust er lykilhugtak,“ skrifar Sigmar Guðmundsson.

Viðreisn hefur þá eindregnu skoðun að ríkisvaldið eigi ekki að vera alltumlykjandi í bankaviðskiptum. Við höfum því stutt söluna á Íslandsbanka, en um leið spurt spurninga um traust, heiðarleika og vönduð vinnubrögð. Til að halda ríkisstjórninni við efnið, því einkavæðingarsporin hræða.

Við viljum ekki að sagan endurtaki sig og einhver dularfullur þýskur banki dúkki upp sem leppur í einhverjum feluleik og samkrulli stjórnmála og viðskipta. Sem betur fer virðist ekkert svo stórfellt upp á teningnum nú en því miður er ekki hægt að gefa þessari sölu ómengað vottorð um heilbrigði, því við eigum að gera sömu kröfur um vandvirkni og gagnsæi, óháð stærð þess hlutar sem seldur er í banka.

Það þarf að upplýsa um hvernig stendur á því að smáir aðilar, sem alls óvíst er að geti talist fagfjárfestar, fengu að kaupa ríkiseigur fyrir tugi milljóna með afslætti. Allt þarf það að þola dagsins ljós og vera vel rökstutt. Annars hrynur traustið á ferlinu sem skemmir fyrir frekari sölu.

Þau tíðindi að bankasýslan telur sig ekki geta veitt gögn um þá sem keyptu þessa eign þjóðarinnar með afslætti, vegna bankaleyndar, eru afleit. Með því hrynur krafan okkur um gagnsæi. Hvernig má það vera að það þarf að toga upplýsingar út með töngum um þá sem kaupa af okkur eign? Þjóðin selur eitthvað en henni kemur ekki við hver keypti. Regluverkið bannar það. Undirbúningur og verklag var sem sagt ekki betra en þetta. Þetta gengur ekki upp. Ef ríkisstjórnin og við öll ætlum að sætta okkur við, að okkur komi það ekki við, hverjir kaupa bankann okkar, þá getum tekið lykilorð og lykilhugtak allra bankaviðskipta og allrar bankasölu og fleygt því út í hafsauga. Þá ríkir ekkert traust.“