Nánast að venju skrifar Styrmir Gunnarsson bestu greinina í helgarmogganum. Hann hefur áhyggjur af stöðu atvinnulausa og þeirri gallhörðu ákvörðun Samtaka atvinnulífsins og þá Bjarna Benediktssonar, að ekki megi hækka atvinnuleysisbætur. Styrmir segir í síðasta kafla greinar sinnar:
„Eitt mikilvægasta verkefni Alþingis og ríkisstjórnar um þessar mundir er að skapa samstöðu í samfélaginu um viðbrögð við veirufaraldrinum. Það verður aldrei samstaða um það að koma fyrirtækjum til hjálpar en ekki þeim sem missa atvinnu sína.
Forseti ASÍ segir í fyrrnefndum pistli:
„Að vera atvinnulaus er fjárhagslegt og félagslegt áfall. Áhyggjur af framfærslu, skert sjálfstraust því maður er ekki að „standa sig“, töpuð tengsl við vinnufélaga og það að detta úr rútínu í daglegu lífi reynist mörgum afar erfitt og er ekki hlutskipti, sem fólk almennt velur sér.“
Um þetta segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í grein hér í blaðinu hinn 13. ágúst sl.:
„Ég hef miklar áhyggjur af andlegri heilsu okkar Íslendinga og tel að við verðum að ráðast í aðgerðir sem miða að því að sem flestir geti leitað sér hjálpar […] Því vil ég skora á alla ráðamenn þjóðarinnar að fara að huga virkilega að andlega þættinum í þessum heimsfaraldri, meira en nú þegar hefur verið gert, enda er fátt mikilvægara en geðheilbrigði heillar þjóðar.“
Þeir sem telja að ekki eigi að hækka atvinnuleysisbætur með þeim rökum að slík hækkun mundi draga úr vilja fólks til að leita sér að vinnu, ættu að hugleiða þessi orð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þau snúa að kjarna þessa máls. Atvinnumissir er félagslegt áfall, eins og Drífa Snædal segir.
Þar að auki mun svo gífurlegt atvinnuleysi, sem nú er skollið á og verður augljóslega langvarandi, leiða til óróa í samfélaginu, eins og dæmin sanna.
Að óbreyttu mun sá órói birtast okkur á Austurvelli.“