Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar langhund í Moggann um frumvarp Katrínar Jakobsdóttur um hatursorðræðu. Sigmundur er mjög mótfallinn frumvarpinu.
Hér verður gripið niður í greininni:
Þá kemur að brjálæðinu. Innrætingarnámskeiðunum sem ríkið á að standa fyrir á meira og minna öllum sviðum samfélagsins. Hverjir munu skrifa námsefnið og kenna námskeiðin? Líklega er óhætt að veðja á að það verði ekki grandvarir sérfræðingar með vernd einstaklingsfrelsis og réttarríkisins að leiðarljósi. En það á bara að koma í ljós þegar tækin og tólin eru komin og ráðherrar Vinstri grænna geta skipað samherja sína í að uppfræða landslýð.
Námskeið verða haldin fyrir opinbera starfsmenn (eins gott að þeir mæti og hlýði ef þeim er annt um starfsframann). Stjórnendur og starfsfólk stjórnarráðsins á að mæta, þ.e. þeir sem eru að innleiða verkefnið, og stjórnkerfið allt með þeim.
Kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga er sérstaklega tekið fyrir og talið æskilegt að senda allt liðið á námskeið um hatursorðræðu. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála á reyndar að sjá um þann þátt. Ríkisvaldið ætlar að taka sveitarstjórnarstigið á námskeið um hugarfar og orðræðu.
Skólastjórnendur, kennarar, leiðbeinendur og íþróttaþjálfarar eiga að fara á námskeið. Hvað er verið að gefa í skyn hérna? Að kennarar og íþróttaþjálfarar stundi hatursorðræðu að því marki að það þurfi að senda þá alla í endurmenntun? Eða getur verið að þetta snúist bara um að nýja vinstrið fái að leggja línurnar?
Dómarar, ákærendur og lögregla eiga að mæta á námskeið! Það verður auk þess unnið sérhæft fræðsluefni fyrir þessa hópa. Vinna skal að betri þekkingu þeirra á málaflokknum. Hvað er eiginlega í gangi hérna?! Það er alla vega ekki þrískipting ríkisvalds. Kunna dómarar ekki lögin? Þarf Vg-aktívista til að útskýra fyrir þeim hvernig beri að skilja lög eða á að dæma eftir einhverju öðru? E.t.v. nýju skilgreiningunum sem verða mótaðar þegar Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að gefa Vg frítt spil til að leiðbeina dómstólum og löggæslu.
Það á reyndar eftir að nefna einn hóp enn sem fellur undir þennan lið. Það er smáhópur sem kallast vinnumarkaðurinn. Það verður boðið upp á námskeið fyrir alla vinnustaði „sbr. aðgerð 3, sem hluta af fræðslu um félagslegt vinnuumhverfi“. Hvenær hættu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur alfarið þátttöku í stjórnmálum? E.t.v. hafa þeir engar áhyggjur í ljósi þess að félagsmálaráðherra verður kommisar þessa hluta námskeiðanna. Ráðherra Vg á að tryggja að stjórnendur fyrirtækja skapi góða vinnustaðamenningu.
Stjórnendum fyrirtækja er ekki treystandi til að vilja gott vinnuumhverfi, kjósendum er ekki treyst til að kjósa fulltrúa án endurmenntunar, kennurum er ekki treyst fyrir börnum og dómurum er ekki treyst til að dæma.
Lokakafli greinarinnar er þessi:
Þetta dæmalausa dellumakerí ríkisstjórnarinnar miðar að því að senda samfélagið allt í endurmenntun sem stjórnað verður af einhverjum sem kynntir verða síðar. Þeir munu svo kenna á grundvelli hugmyndafræði sem forsætisráðherrann treysti sér ekki til að útskýra hver er. Það kemur fyrst í ljós þegar samstarfsflokkarnir hafa álpast til að veita forsætisráðherranum og pólitískum samherjum vald til að móta samfélagið eftir eigin höfði.