Ég þekki þá báða með miklum ágætum. Bolla Kristinsson og Sigmund Erni Rúnarsson. Bolli var gestur í Mannamáli Sigmundar Ernis. Bolli hefur sterkar skoðanir um skipulag miðborgarinnar. Bolli er þeirrar skoðunar að Dagur B. Eggertsson sé verri borgarstjóri en aðrir. Hann kom því að nokkrum sinnum. Sigmundur Ernir þaggaði alltaf niður í Bolla þegar hann sagði Dag vera verstan allra borgarstjóra.
Hvers vegna? Sigmundur Ernir sagði Dag ekki vera til staðar til að svara fyrir sig. Þetta er alveg nýtt. Má ekki lengur gagnrýna stjórnmálamenn nema þeir séu viðstaddir? Að þeir geti samstundis svarað gagnrýni sem sett er fram. Auðvitað ekki. Eða það vona ég. Kannski væri rétt að hlusta aftur á samtal þeirra Sigmundar Ernis og Kára Stefánssonar. Nenni því ekki enn er viss um að Kári hafi gagnrýnt fjarstadda stjórnmálamenn. Nýtur Dagur friðhelgi á Hringbraut?
Ég hef margoft talað um stjórnmál við Bolla. Hann er orðvar maður. Talar aldrei illa um nokkurn mann, ekki svo ég viti. Ég er viss um að Bolli ætlaði aldrei að tala illa um manninn Dag B. Eggertsson. Bara um embættisverk hans. Mig langaði mikið að heyra rökstuðninginn fyrir þeirri fullyrðingu að Dagur B. Eggertsson væri verstur allra borgarstjóra. Það verður að bíða.
Sigmundur Erni gerði, að mínu viti, rangt með því að stöðva Bolla. Var það af tepruskap eða af tillitssemi, eða var einhver allt önnur ástæða fyrir viðbrögðum Sigmundar Ernis?
-sme