- Advertisement -

Tengdadóttir Steingríms J. fer gegn varaformanni Vinstri grænna

Tengdadóttir Steingríms J. fer gegn varaformanni Vinstri grænna

Það stefnir í átök um forystusæti Vinstri grænna í Kraganum. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem sat þar í síðustu kosningum, er hætt í flokknum. Ólafur Þór Gunnarsson, sem var í öðru sæti, keppir að því að ná fyrsta sæti. Það gerir líka varaformaðurinn, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, sem hefur ekki áður verið í framboði.

Nú hefur tengdadóttir Steingríms J. Sigfússonar bæst við. Una Hildardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér.

Una skrifar:

„Kæru vinir!

Rétt í þessu tilkynnti ég kjörstjórn VG í Suðvesturkjördæmi framboð mitt í komandi forvali. Síðastliðnar vikur hef ég átt ótal samtöl við bakland mitt, fjölskyldu og vini og það er gott að finna hve öflugt stuðningsnet mitt er. Ég hef eindregið verið hvött áfram til að sækjast eftir oddvitasæti listans. Það er nefnilega rík þörf á þátttöku ungs fólks og þá sérstaklega ungra kvenna í stjórnmálum. Síðastliðna mánuði hef ég sjálf skorað á kraftmiklar konur í kringum mig að taka þátt í forvölum, prófkjörum og uppstillingum, en færri en ég óska hafa brugðist við. Það er mikilvægt að við sem hvattar eru áfram, viljum og getum boðið fram krafta okkar, bregðumst við því trausti með því að sækjast eftir áhrifastöðum.

Ég gef því kost á mér í 1-2. sæti í forvali og geta félagar mínir í Suðvesturkjördæmi teflt fram ungri, en í senn reynslumikilli konu til forystu í stærsta kjördæmi landsins. Ég hef síðustu ár verið varaþingmaður VG í kjördæminu auk þess að hafa gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vegum hreyfingarinnar. Ég treysti félögum í VG í Suðvesturkjördæmi til þess að velja öflugt fólk til forystu og þar vil ég skipa annað af efstu sætum listans.“

Una verður vonandi fyrst og síðast metin af eigin verkum og stefnumálum en tengdapabbinn hlýtur að leggja henni lið.

Allt um það. Spennandi forval er framundan. Varaformaður flokksins þarf að hafa fyrir því að ná þingsæti.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: